Réðst ítrekað á móður sína

AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 31 árs karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir að svipta móður sína frelsi og ráðast að henni ítrekað. Maðurinn hótaði meðal annars að slíta útlimi af móður sinni. Honum var gert að greiða henni rúmar 700 þúsund krónur í miskabætur.

Í ákæru segir að maðurinn hafi:

  • mánudaginn 19. september 2012 veist að móður sinni með því að grípa um báða handleggi hennar, hrist hana og síðan skallað í vinstri augabrún hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut glóðarauga og mar á vinstri augabrún.
  • þriðjudaginn 9. október 2012 slegið bróður sinn nokkur högg í andlit og höfuð með þeim afleiðingum að það blæddi úr vinstra eyra, hann hlaut bólgur á vinstra gagnauga, hrufl á vinstra eyra og eymsli í vinstri kinn og kjálka.
  • að morgni þriðjudagsins 22. janúar 2013, í bifreið sem móðir hans ók:
  1. Á Höfðabakkabrú, tekið móður sína hálstaki og slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit, á meðan hún ók bifreiðinni.
  2. Á Gullinbrú, tekið hana hálstaki og slegið hana margsinnis með krepptum hnefa í andlit, á meðan hún ók bifreiðinni.
  3. Á bifreiðastæði fyrir framan Borgarholtsskóla við Skólaveg, tekið móður sína hálstaki, fært höfuð hennar á læri sér, þar sem hann sat í farþegasætinu, haldið henni þannig fastri þannig að hún komst ekki út úr bifreiðinni, eða í um hálfa klukkustund, slegið hana margsinnis með krepptum hnefa í andlit og líkama, tekið um hægri úlnlið hennar og snúið upp á handlegginn og hótað því að slíta af henni útlimi hennar og höfuð og að ætla að stinga hana með hnífi, sem hann kvaðst vera með.
  4. Í kjölfar þess að hún komst út úr bifreiðinni, numið á brott með sér úr bifreiðinni, þar sem hún stóð á bifreiðastæðinu við Borgarholtsskóla, gleraugu móður sinnar, kveikjuláslykla bifreiðarinnar og veski með 32.000 kr. í peningaseðlum, greiðslukortum, lyklum, auðkennislykli og farsíma.

Maðurinn játaði sök og var dæmdur í árs fangelsi. Honum var, eins og áður segir, gert að greiða móður sinni bætur en einnig bróður sínum 560 þúsund krónur.

Í dóminum segir að á árunum 2006 til 2011 hafi maðurinn einu sinni gengist undir sektargreiðslu vegna umferðarlagabrota. Þá var hann í tvígang á þessu tímabili dæmdur í sektargreiðslur vegna umferðarlagabrota og hann var með dómi Hæstaréttar 23. maí 2013 dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi.

Þá segir að brot mannsins séu mjög alvarleg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert