27 m² íbúðir á 80 þúsund á mánuði

Með því að innrétta litlar íbúðir inni í gömlum 40 feta gámum er hugmynd nokkurra frumkvöðla að leysa hluta af húsnæðisvandanum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir um 80 þúsund krónur á mánuði gæti fólk leigt litla 27 fermetra íbúð með baðherbergi, salernis-, eldhús- og þvottaaðstöðu með svölum eða verönd. Einnig hefur fyrirtækið útfært lausnir þar sem íbúðirnar eru tæpir 40 fermetrar þar sem þrír gámar eru notaðir til að rúma tvær íbúðir. 

Á fjórum mánuðum væri hægt að útbúa 34 slíkar íbúðir ef sveitarstjórnir gæfu grænt ljós á að reisa slíkt húsnæði en veita þarf undanþágur vegna bygginganna þar sem baðherbergin í íbúðunum eru t.a.m. of lítil sé litið til byggingarreglugerða. Mikill húsnæðisvandi er á höfuðborgarsvæðinu þar sem mikil eftirspurn er eftir íbúðum á því verðbili sem fyrirtækið Smáíbúðir ehf. hyggst útbúa. Fyrirtækið hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir sveitarstjórnarfólki, sem hefur verið áhugasamt um lausnirnar sem fyrirtækið hefur þróað og er nú að fara yfir málin.

Auðunn Bjarni Ólafsson, einn eigenda fyrirtækisins, segir helstu hindrunina vera hugarfar fólks sem eigi stundum erfitt með að ímynda sér byggð í gömlum flutningsgámum. Gámarnir yrðu þó klæddir að utan og væntanlega yrði bárujárnsklæðning á ytra byrði þeirra. Þá bendir hann á að heilu hverfin hafi byggst upp erlendis þar sem byggingarnar eru endurnýttir gámar, hverfið Keetwonen í Amsterdam sé gott dæmi en það byggðist upp fyrir rúmum 10 árum.

mbl.is kíkti á sýnisíbúð sem fyrirtækið hefur innréttað og ræddi við Auðun í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert