„Enginn annar vill taka við honum“

Systir mannsins segir hann þó síður en svo eiga heima …
Systir mannsins segir hann þó síður en svo eiga heima í fangelsi. Kristinn Ingvarsson

Maðurinn sem handtekinn var í Hraunbæ í gær er tæplega þrjátíu ára gamall. Líf hans hefur síður en svo verið dans á rósum því hann glímir við verulega greindarskerðingu, hefur margar greiningar og stríðir við eiturlyfjafíkn. Þá hefur hann einnig framheilaskaða sem hann hlaut eftir að móðir hans varð fyrir höggi þegar hún gekk með hann, höggi sem gerði það að verkum að fæðing fór af stað. Systir hans segir hann og fjölskyldu hans koma að lokuðum dyrum í kerfinu sem hafi brugðist verulega.

Líkt og mbl.is greindi frá í gær og í morgun var maður handtekinn í Hraunbæ í gær, en hann ók án ökuleyfis og er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir lögregluþjónar leituðu sér læknishjálpar eftir handtökuna, en sjö lögregluþjónar komu að handtökunni.
 
Systir mannsins hafði samband við mbl.is og vildi segja sögu bróður síns. Hún segir að sér hafi brugðið og henni hafi sárnað þegar hún sá myndskeið af handtökunni sem fylgdi frétt mbl.is, þó að hún hafi reyndar oft orðið vitni að því þegar hann hefur verið handtekinn. „Bróðir minn hefur verið veikur lengi. Hann hefur alltaf verið á þessu gráa svæði og passar hvergi inn. Við höfum verið í basli með þetta alla tíð og höfum átt í miklum erfiðleikum í samskiptum við lögreglu, fangelsi og hinar ýmsu stofnanir samfélagsins,“ segir systir mannsins.

Móðir hans alltaf látin taka við honum

Bróðir konunnar hefur verið í neyslu frá unga aldri. Til að byrja með var hann vistaður á Stuðlum og á Háholti, meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. „Hann hefur verið inn og út af stofnunum allt sitt líf,“ segir systir mannsins. Maðurinn glímir við verulega greindarskerðingu, er með ADHD, vott af Tourette, þráhyggjuhegðun og fleiri raskanir.

Hann hefur aftur á móti ekki verið greindur með geðsjúkdóm og því fellur hann milli kerfa, að sögn systur hans. Eins og kom fram fyrr í viðtalinu hefur maðurinn einnig framheilaskaða. „Hann hefur versnað mikið með fíkniefnaneyslu síðastliðinna ára. Gert var geðmat á honum, þegar hann sat í fangelsi, og þar kom skýrt fram að hann hefur þennan skaða.“

Maðurinn bjó í íbúð í búsetukjarna í Árbænum og nýtur til að mynda góðrar aðstoðar félagsráðgjafa. Nýverið kviknaði í út frá eldamennsku hjá honum og er hann því á götunni. Þó íbúðin verði gerð upp fær hann hana ekki aftur. Maðurinn hafði búið í íbúðinni í fjóra mánuði. „Þarna kemur móðir okkar inn sem úrræði, enn og aftur. Hann er alltaf látinn fara heim til mömmu, þar sem enginn annar vill taka við honum.“

Móðir mannsins keyrði hann á Vog fyrir einni og hálfri viku. „Þá var hún búin að halda honum heima í fráhvörfum, en hann þurfti að bíða í tíu daga eftir plássi,“ segir systir mannsins. Daginn eftir fór maðurinn út af Vogi. Móðir hans hringdi á hverjum degi í félagsráðgjafa mannsins sem leitaði leiða fyrir hann. „En það vildi enginn taka við honum, það eru engin úrræði þar sem hann er í eiturlyfjum.“

Fyrir stuttu lagði hann leið sína út í sjoppu og kom blóðugur heim. Þá hafði hann barið tvo einstaklinga sem á vegi hans urðu, en honum fannst eins og þeir hefðu horft á hann og líkaði honum það ekki. Hér hefðu viðvörunarbjöllur átt að fara í gang, að mati systur mannsins, og hélt móðir þeirra áfram að biðja um aðstoð fyrir hann.

Á ekki heima í fangelsi

Maðurinn hefur einu sinni verið sviptur sjálfræði, en þá dvaldi hann á Starengi, og var hann vistaður á geðdeild í kjölfarið. Skömmu síðar fékk lögreglan símtal, en þá réð starfsfólk deildarinnar ekki við manninn og var hann sóttur af lögreglu sem ók honum í fangelsi. Maðurinn dvelur nú einnig í fangelsi, en þangað var farið með hann eftir handtökuna í gær. Hann var á skilorði vegna fíkniefnabrota og á eftir að afplána fimm mánuði.

Systir mannsins segir hann þó síður en svo eiga heima í fangelsi, það sé ekki rétta lausnin. „Hann er fárveikur og með greindarvísitölu á við þroskaheftan mann. Hann á ekki heima nálægt mönnum sem sitja inni fyrir alvarleg brot. Hann er mjög áhrifagjarn, í rauninni eins og tólf ára barn.“

Systir mannsins segir að móðir þeirra hafi í mörg ár reynt að styðja son sinn og finna hentugar leiðir í kerfinu fyrir hann. Þegar hann hefur verið vistaður í fangelsi hafi hún til að mynda alltaf unnið af kappi að því að eitthvað tæki við manninum þegar hann lyki afplánuninni. Yfirleitt endar hann þó heima hjá henni. „Við höfum haft hann heima hjá mömmu frá því að ég var unglingur, snargeðveikan í neyslu og höfum þurft að hringja hátt í hundrað sinnum á lögregluna.“

Hún segir að úrræðaleysis gæti hjá lögreglu. Oft hafi hann verið vistaður í fangaklefa en þar má aðeins halda honum í sólarhring. Eftir það fær hann miða svo hann geti tekið strætó og er sendur burtu. „Mamma á alltaf að taka við honum, þar sem lögreglan og kerfið hafa ekki úrræði. Kerfin vinna ekki saman og okkur er vísað hingað og þangað. Við erum hætt að hringja á lögregluna, það þýðir ekkert.“

Mikilvægt að maðurinn fái rétt úrræði

Konan vill vekja athygli á úrræðaleysinu sem hefur mætt bróður hennar í kerfinu og því að móðir þeirra virðist alltaf eiga að taka við honum, þrátt fyrir að hann sé tæplega þrítugur og hún ráði ekki alltaf við son sinn. Konan segir að ljóst sé að víða sé pottur brotinn og óttast að bróðir hennar eigi eftir að vinna sjálfum sér eða öðrum mein, verði ekki gripið inn í aðstæður hans. Bróðir hennar á fjölskyldu sem hefur reynt að styðja hann í gegnum tíðina, en ekki er víst að aðrir séu svo heppnir.
 
„Við viljum sjá að þegar hann fer í þetta ástand, þá sé hægt að kippa honum í burtu og vista á viðeigandi stofnun þar til hann hefur náð jafnvægi. Hann nær ekki jafnvægi í fangelsi eða í fangaklefa í tæpan sólarhring. Ef við hefðum fengið aðstoð í vikunni, þegar mamma bað ítrekað um hjálp, hefði ef til vill ekki þurft að koma til handtökunnar,“ segir konan, en dagana fyrir handtökuna hélt maðurinn móður sinni í gíslingu, gekk ítrekað í skrokk á henni og hótaði henni meðal annars með sprautum. Í gær tók hann síðan bíllykla hennar, rauk út og var því næst handtekinn.

Frétt mbl.is: Lögreglan í átökum í Hraunbæ.
Frétt mbl.is: Tveir lögreglumenn á slysadeild.

Konan segir að bróðir hennar og fjölskylda þeirra hafi komið …
Konan segir að bróðir hennar og fjölskylda þeirra hafi komið að lokuðum dyrum í kerfinu. mbl.is/Golli
Konan vill vekja athygli á úrræðaleysinu sem hefur mætt bróður …
Konan vill vekja athygli á úrræðaleysinu sem hefur mætt bróður hennar í kerfinu og því að móðir þeirra virðist alltaf eiga að taka við manninum. Kristinn Ingvarsson
Fjölskyldan hefur margoft þurft að kalla til lögreglu vegna mannsins
Fjölskyldan hefur margoft þurft að kalla til lögreglu vegna mannsins Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert