Varað við erfiðum akstursskilyrðum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus

Búast má við erfiðum akstursskilyrðum víða um land í dag vegna ofankomu, síst þó suðaustan- og austanlands. Eins er bent á að það hlýnar talsvert á morgun með SA-stormi og getur þá myndast flughálka þar sem svell eru undir snjó, að því er segir í frétt á vefsíðu Veðurstofunnar.

Í dag verður allhvasst með snjókomu og skafrenningi á Norðurlandi, en skánar mikið með kvöldinu. Snjókóf er líklegt, svo sem á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði framan af degi og eins á Vatnsskarði, Þverárfjalli, Öxnadalsheiði og síðar á Víkurskarði.

Þá er reiknað með að það snjói talsvert á láglendi í Skagafirði og við utanverðan Eyjafjörð þar til í kvöld, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálka á Hellisheiði

Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja er frá Selfossi og austur að Hvolsvelli en ófært er á Mosfellsheiði og þaðan austur yfir Lyngdalsheiði en unnið er að mokstri. Annars er víða snjóþekja eða einhver hálka á Suðurlandi.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum á Vesturlandi og snjóþekja og skafrenningur á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á láglendi og sumstaðar þæfingur en ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og um Klettsháls. Þá er þungfært á Gemlufallsheiði og unnið er að mokstri á Kleifaheiði, en þar er ófært eins og er.

Í tilkynningu segir að snjóþekja eða hálka sé víðast hvar á Norðurlandi en þó sé þæfingsfærð á Siglufjarðarvegi og Þverárfjalli.

Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði. Víða er snjóþekja eða hálka á vegum á Austurlandi og með suðausturströndinni. Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði en verið er að hreinsa. Vatnsskarð eystra er ófært. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert