20 þurfa að sofa í Baldri í nótt

Breiðafjarðaferjan Baldur.
Breiðafjarðaferjan Baldur. mbl.is/Sigurður Bogi

Um 20 manns munu gista í Breiðafjarðarferjunni Baldri í nótt vegna ófærðar en ekki tókst að ryðja veginn við Brjánslæk þar sem ferjan hefur verið frá því kl. 17:30 í dag. Vonir standa til að aðstæður til snjóruðnings verði betri í fyrramálið.

Unnar Valby Gunnarsson, skipstjóri Baldurs, segir í samtali við mbl.is að alls hafi um 42 farþegar siglt af stað með ferjunni, en hún lagði af stað frá Stykkishólmi kl. 15 í dag. Hann segir að þá hafi ekki legið fyrir að starfsmenn Vegagerðarinnar myndu ekki ná að ryðja vegina. Þær upplýsingar hafi borist þegar ferjan var komin hálfa leið yfir Breiðafjörðinn. 

Um 20 manns, bæði fullorðnir og börn, munu gista í ferjunni í nótt að sögn Unnars. Hann segir að hinn helmingur farþega hafi ákveðið að leita skjóls í bændagistingu í nótt. Meirihluti farþega er á vesturleiðinni, en Kleifaheiði hefur verið ófær.

„Þeir [starfsmenn Vegagerðarinnar] gáfust upp á að reyna að moka í dag og ætla að reyna aftur hálfsex í fyrramálið,“ segir Unnar. 

Spurður út í viðbrögð farþega segir hann að þeir séu ósáttir við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að loka ekki veginum fyrr. „Það er ekki fyrr en við erum lagðir af stað að hann lokast.“

Hann bendir jafnframt á að um borð í ferjunni sé fiskur sem þurfi bæði að komast í flug og í Norrænu. „Við hefðum þurft að setja á aukaferð hefðum við ekki stoppað og beðið hérna. Það fer í gegnum Vegagerðina, þannig að við ákváðum að gista hérna í nótt,“ segir Unnar og bætir við að það sé mikilvægt að fiskurinn, samtals um 80 tonn af þorski og 40 tonn af laxi, komist ferskur á leiðarenda. 

Aðspurður segir Unnar að siglingin yfir fjörðinn hafi gengið samkvæmt áætlun, en hún tekur um tvo og hálfan tíma. Sem fyrr segir var Baldur kominn á Brjánslæk um kl. 17:30 í dag. „Menn eru bara búnir að borða, svo er það bara sjónvarpið og tölvan,“ segir hann um það sem fólk hefur haft fyrir stafni á meðan beðið er eftir snjóruðningi.

Unnar segir að svefnaðstaðan um borð sé sæmileg. 

Varðandi framhaldið segir Unnar að staðan verði tekin í fyrramálið. „Það þarf bara að spila þetta eftir náttúruöflunum,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert