„Það geta ekki allir orðið glaðir“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Hið rökrétta í málinu er að sækja um aðild að Evrópusambandinu þegar menn vilja ganga þar inn og þess vegna mjög órökrétt að sækja um aðild og vera að reyna að komast inn í sambandið ef menn vilja ekki að þær viðræður beri árangur.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Heiðu Kristínu Helgadóttur, varaþingmanni Bjartrar framtíðar, sem vísaði í þau ummæli ráðherrans í viðtali við Frjálsa verslun á dögunum þar sem hann sagði Framsóknarflokkinn aðhyllast róttæka rökhyggju. Spurði hún hvernig það kæmi heim og saman við þá afstöðu að vilja ekki halda áfram umsóknarferlinu að Evrópusambandinu.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu forsætisráðherra harðlega fyrir það hvernig haldið hefði verið á málum varðandi þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi ráðherrann fyrir að hafa ekki boðað til fundar í síðustu viku um framhald málsins og sakaði hann um að hunsa stjórnarandstöðuflokkana í þeim efnum.

„Ég hef engan hunsað. Þetta mál sem hér um ræðir er komið til þingsins, komið til umræðu í þinginu. Þegar svona stórt og umdeilt mál er að ræða er sjálfsagt að menn reyni að finna út úr hvernig best megi haga málsmeðferðinni þannig að hún sé sem líklegust til að skila sem mestum árangri og sem flestir verði ánægðir. Það er einmitt markmið mitt að sem flestir verði glaðir. Það geta ekki allir orðið glaðir en best að standa þannig að málum að sem flestir séu ánægðir,“ sagði hann.

Ríkisstjórnin hefði orðið að svara Evrópusambandinu hvað hún ætlaði að gera við umsóknina um inngöngu í sambandið sem hún hefði erft frá fyrri stjórn. Það hefði ríkisstjórnin gert og framhald þess og úrvinnsla væri í höndum þingsins. Eðlilegt væri að þingið ræddi það hvernig best mætti haga vinnu við málið til þess að skilaði sem bestum árangri og sem flestir yrðu ánægðir.

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert