Þingfundi slitið

Frá Alþingi í dag.
Frá Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Þingfundi var slitið rétt fyrir kl. 20 í kvöld. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru mjög ósáttir við að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um aðild Íslands að ESB verði dregin til baka sé enn á dagskrá þingsins og fjölmenntu þeir í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta til að koma athugasemdum sínum á framfæri.

Formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi komu saman til fundar á sjötta tímanum í dag til að finna lausn á deilunni. Fundinum lauk án niðurstöðu og um kl. 18:30 hófst þingfundur aftur. Þá gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar formenn ríkisstjórnarflokkanna fyrir að hafa ekki lagt fram neinar tillögur til lausnar á málinu. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það óhjákvæmilegt að línur yrðu skýrðar í þessu máli. „Núna er boltinn hjá forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna, þeir verða að skýra afstöðu sína í þessu máli. Við erum tilbúin til samstarfs,“ sagði hann.

Þingið kemur næst saman kl. 13:30 á morgun og gera má ráð fyrir að umræða um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra haldi þá áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert