Fólk að tínast frá borði

Breiðafjarðaferjan Baldur. Mynd fengin af vef Sæferða.
Breiðafjarðaferjan Baldur. Mynd fengin af vef Sæferða.

Búið er að ryðja Kleifaheiði og því orðið fært á Patreksfjörð. Að sögn Unnars Valby Gunnarssonar, skipstjóra á Breiðafjarðarferjunni Baldri, eru þeir 20 farþegar sem gistu um borð í ferjunni í nótt að tínast frá borði. Fólkið gisti um borð í nótt þar sem allt var ófært þegar ferjan kom til hafnar á Brjánslæk í gær.

Unnar segir að þetta sé í fyrsta skipti sem fólk hafi gist um borð í ferjunni vegna veðurs en ekki hafi væst um farþegana í nótt og nægur matur um borð fyrir alla.

Flutningabílar sem komust yfir Kleifaheiði í morgun eru nú að koma með ferskan fisk um borð sem er á leið í flug frá Keflavík.

Alls voru 42 farþegar um borð í Baldri þegar hann kom til hafnar í gær en rúmlega 20 farþegar fengu gistingu í bændagistingu í sveitinni.

Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum fjallvegum en greiðfært á láglendi. Hálka er á Kleifaheiði og á Hálfdán en hálka og éljagangur á Mikladal. Þæfingsfærð og óveður er á Steingrímsfjarðarheiði en hálkublettir og éljagangur á Þröskuldum.

20 þurftu að sofa í Baldri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert