Raddir „ástandsstúlkna“ aldrei heyrst

Erlendir hermenn í miðborg Reykjavíkur. Þeir voru heillandi í augum …
Erlendir hermenn í miðborg Reykjavíkur. Þeir voru heillandi í augum íslenskra stúlkna.

Á stríðsárunum 1941-1942 var fjöldi stúlkna dæmdur til vistar á vinnuheimili á Kleppjárnsreykjum. Sakarefnið var samneyti við erlenda hermenn. Alma Ómarsdóttir er nú að leggja lokahönd á heimildarmynd um „ástandið“ og leitar þessara stúlkna. Hún flytur erindi um vinnuheimilið í Snorrastofu í kvöld.

„Myndin er nánast tilbúin, en ég hef alltaf vonast til þess að fá frásögn frá fyrstu hendi, frá konu sem sjálf upplifði þessar aðgerðir yfirvalda, það er eiginlega það eina sem vantar til að loka hringnum,“ segir Alma.

Rödd kvennanna aldrei heyrst

Alma hefur um nokkra hríð rannsakað samskipti íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, því fjölmiðlaumfjöllun þess tíma um „ástandið“ var viðfangsefni meistararitgerðar hennar í blaða- og fréttamennsku.

Í framhaldinu réðst hún í gerð heimildarmyndarinnar og segir að með hjálp fjölda gagna sem hún fékk aðgang að megi púsla saman nokkuð heillegri mynd af því sem stúlkurnar gengu í gegnum.

„Þetta var mjög vel skrásett. Ungmennaeftirlitið var undir stjórn Jóhönnu Knudsen, fyrstu lögreglukonunnar á Íslandi, sem yfirheyrði stúlkurnar. Stundum komu stúlkur í margar yfirheyrslur hjá henni og voru spurðar mjög persónulegra og nærgöngulla spurninga,“ segir Alma.

„Þessar skýrslur eru til og eru mjög ítarlegar. Ég er líka með lögregluskýrslur, barnaverndarskýrslur og úrskurði ungmennadómstólsins, en persónulega frásögnin er ekki til. Við höfum aldrei fengið að heyra rödd þessara kvenna, og núna erum við að brenna út á tíma með það.“

Farið með þær eins og sakamenn

Í meistaraverkefni Ölmu kemur fram að fjölmiðlar hafi á sínum tíma mjög fljótt tekið neikvæða afstöðu gegn þessum ungu stúlkum og ekki gætt hlutlægni í umfjöllun um málefni þeirra. 

Aðgerðir stjórnvalda voru sömuleiðis mjög harkalegar. Gripið var til þess að hækka sjálfræðisaldur, fyrst úr 16 árum í 20 en loks 18 ár, til þess að unnt væri að grípa inn í persónulegt líf ungra kvenna. Stúlkurnar voru með öllu réttlausar og farið með þær eins og glæpamenn, þær sóttar af lögreglu og fluttar fyrir dóm.

„Það sló mig að sjá að í hugmyndum ástandsnefndarinnar var eiginlega lagt upp með sjálfræðissviptingu. Breytingin á barnaverndarlögum var gerð til þess að þau næðu yfir stúlkur sem voru eldri en 16 ára og þeir orða það sjálfir þannig að þar með sé verið að svipta unglinga sjálfræði vegna ákveðinna brota. Það stendur bara svart á hvítu,“ segir Alma.

Þessar konur eru í dag á níræðisaldri, en Alma veit til þess að nokkrar þeirra eru enn á lífi og hún vonast til að einhverjar þeirra, eða afkomendur þeirra, hafi samband. Þrátt fyrir að hafa sjálf fengið aðgang að öllum formlegum gögnum var það með því skilyrði að hún skrifaði undir heit þess að nafngreina konurnar ekki né hafa samband við þær að fyrra bragði, nema ábending bærist annars staðar frá.

„Maður skilur vel að þessar konur veigri sér jafnvel enn í dag við því að stíga fram í dagsljósið, því þær eru svo vanar því að litið sé á þessi mál neikvæðum augum. En í dag sjáum við þetta auðvitað í öðru ljósi og ég er að fjalla um þetta með allt öðrum formerkjum. Því það sem var rangt í þessu var ekki það sem stúlkurnar gerðu heldur aðgerðir yfirvalda.“

Hægt er að hafa samband við Ölmu á netfanginu alma@ruv.is eða síma 616-6675.

Fyrirlestur Ölmu um vinnuheimilið á Kleppjárnsreykjum fer fram í kvöld kl. 20:30 í Snorrastofu í Reykholti. Sjá nánar á vef Snorrastofu

Alma Ómarsdóttir flytur erindi um vinnuheimilið á Kleppjárnsreykjum í kvöld …
Alma Ómarsdóttir flytur erindi um vinnuheimilið á Kleppjárnsreykjum í kvöld kl. 20:30, í Snorrastofu í Reykholti. mbl.is/Árni Sæberg
Alma Ómarsdóttir.
Alma Ómarsdóttir.
Hermenn við slippinn í Reykjavík 1945.
Hermenn við slippinn í Reykjavík 1945.
Hermenn á Suðurgötu í Reykjavík.
Hermenn á Suðurgötu í Reykjavík.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert