„Allir eru sótölvaðir á böllum“

Lögreglan reynir að sporna við ólöglegum bjórkvöldum framhaldsskólanema.
Lögreglan reynir að sporna við ólöglegum bjórkvöldum framhaldsskólanema. AFP

„Það er menning fyrir því að um leið og þú byrjar í framhaldsskóla byrjarðu að drekka. Allir eru sótölvaðir á böllum,“ segir varaformaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema. (SÍF)

Aðalvarðstjóri lögreglustöðvar miðborgarinnar segir umhugsunarvert að blindu auga sé snúið gegn unglingadrykkju á skólaböllum. Hann segist jafnframt vilja sjá að skemmtistaðir séu ekki opnir eins lengi.

Þetta kom fram á morgunfundi forvarnarhópsins Náum áttum, þar sem umfjöllunarefnið var næturlíf og neysla ungs fólks. 

Þrýstingur að byrja að drekka

Fréttablaðið sagði frá því í morgun að skólayfirvöld Menntaskólans við Sund hefðu ákveðið að ekki yrðu haldin fleiri böll það sem eftir er skólaársins, vegna mikillar drykkju unglinganna og ofbeldi sem ölvuninni fylgdi.

Eydís Blöndal, varaformaður SÍF, útskrifaðist sjálf úr Menntaskólanum við Hamrahlíð um jólin. Hún segir að unglingar verði fyrir óbeinum þrýstingi frá umhverfinu um að byrja að drekka um leið og þeir byrji í framhaldsskóla, vegna þess hversu rík drykkjumenning sé í kringum skólaböllin.

„Ég beið sjálf með að byrja að drekka í sjö mánuði. Það sem mér fannst ég aðallega græða á því var að ég var edrú í partíum og sá vinkonur mínar, sem ég var búin að þekkja í 10 ár, gera sig að algjörum fíflum. Drekka heilan landabrúsa og æla í klósettið allt kvöldið. Svo ég vissi hvað átti að gera og hvað ekki, og ég hef ekki lent í vandamálum með að drekka of mikið.“

Reyna að aðskilja skólaböll og næturlífið

Á höfuðborgarsvæðinu fara stundum fram 2-3 framhaldsskólaböll á einni viku og lögreglan hefur ekki mannskap til að hafa eftirlit með þeim, að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðalvarðstjóra lögreglustöðvar miðborgarinnar.

Hann benti á að á þessum böllum væri drykkja ungmenna í raun samþykkt, þar væru starfrækt sk. dauðaherbergi og hvorki lögreglu né barnayfirvöldum tilkynnt um börn sem dæju áfengisdauða á skólaböllum.

Lögreglan hefur ekki veitt heimild fyrir að skólaböllin séu haldin á föstudags- og laugardagskvöldum, til að koma í veg fyrir að unglingarnir haldi djamminu áfram í miðborginni.

Að sögn Jóhanns Karls reyndi lögreglan einnig að fá böllin færð af fimmtudögum, því þá er einnig mikið næturlíf í borginni, en sú hugmynd mætti mikilli andstöðu frá nemendum og skólastjórnendum. Flest skólaböll fara því fram á fimmtudögum.

Herða aðgerðir gegn bjórkvöldum

Bjórkvöld framhaldsskólanema eru hins vegar erfiðari við að eiga. Formlega eru þau hvorki haldin af skólanum sjálfum né nemendafélögum, heldur er yfirleitt einhver nemandi innan skólans sem leigir sal í eigin nafni, kaupir bjórkúta og selur inn.

Bjórkvöldin voru oft haldin í miðri viku, en með auknu eftirliti lögreglu hafa þau færst yfir á helgarnar og að sögn Jóhanns Karls breytast staðsetningarnar líka stöðugt.

„Það eru alltaf einhverjir veitingamenn sem eru tilbúnir að græða á krökkunum og það tekur okkur alltaf smátíma að negla þá. Lögreglan hefur frétt af fjölgun þessara kvölda að undanförnu og hyggur á hertar aðgerðir í þeim efnum.“

Unglingadrykkja dregst saman

Rétt er að taka fram að þrátt fyrir að umræðan kunni að benda til annars þá hefur engu að síður dregið úr unglingadrykkju.

Landlæknir gerði könnun árið 2000 og aðra til samanburðar 2013, þar sem framhaldsskólanemar voru m.a. spurðir hvort þeir hefðu orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðustu 30 daga. Hlutfallið á þessum 13 árum lækkaði úr 64% árið 2000 í 49% árið 2013.

Í grunnskólunum er þróunin ennþá betri. Árið 2000 höfðu 32% nemenda í 10. bekk orðið ölvuð á síðustu 30 dögum. Árið 2013 hafði þetta hlutfall lækkað í 5%.

Sveinbjörn Kristjánsson hjá embætti Landslæknis segir þetta m.a. afrakstur jákvæðra forvarna, sem hafi sýnt sig að skili meiru en hræðsluáróður. Hann sagði skipta máli að bjóða börnum og unglingum upp á aðra valkosti til afþreyingar og skemmtunar en að neyta áfengis.

Máttu ekki setjast inn á kaffihús

Eydís tók í sama streng og benti á að á meðan vel væri hugað að grunnskólanemum þá vantaði eitthvað meira fyrir unglinga sem komnir væru í framhaldsskóla. Fyrir vikið sæktu þeir í að fara á skemmtistaði þar sem þeir mættu samkvæmt lögum ekki vera.

„Hvað er öruggur staður fyrir ungt fólk að skemmta sér? Í framhaldsskóla er enginn að pæla í því hvað þú gerir á kvöldin, nema bara að þú mátt ekki drekka. Þú hefur einn annan valkost, og það er að fara í ísbúð. Það er enginn að fara í bíó öll kvöld vikunnar, og hvað eiga krakkar að gera? Rúnta um á bíl mömmu sinnar?“

Eydís sagðist sjálf sem dæmi hafa farið með vinkonu sinni á kaffihús á fimmtudagskvöldi, en verið meinaður aðgangur. „Við ætluðum að fá okkur kakóbolla, en okkur var ekki hleypt inn. Hvað áttum við að gera? Við fórum bara út í bíl og sátum þar. Svo fórum við heim í tölvuna. Svo er kvartað yfir því að við séum of mikið í tölvunni.“

Lögreglumenn í miðborginni hella niður áfengi úr fórum unglinga.
Lögreglumenn í miðborginni hella niður áfengi úr fórum unglinga. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Verðandi stúdentar skemmta sér fyrir lokaprófin.
Verðandi stúdentar skemmta sér fyrir lokaprófin. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert