Barnaverndarsamtök rúin trausti

Kristín Snæfells
Kristín Snæfells

Umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis.is um Kristínu Snæfells og samtökin Vörn fyrir börn varð til þess að traust á samtökunum hrundi. Þetta sagði lögmaður hennar fyrir dómi. Lögmaður 365 sagði að umfjöllunin hefði verið nauðsynleg og fjölmiðillinn brugðist hlutverki sínu ef hann hefði ekki gert það.

Kristín höfðaði mál á hendur Maríu Lilju Þrastardóttur vegna skrifa hennar í Fréttablaðið í júní í fyrra, annars vegar undir fyrirsögninni Varað við fúskurum í barnavernd og hins vegar Barn látið ljúga til um kynferðisofbeldi. Báðar greinar birtust einnig á Vísi.is. Hún krefst þess að tiltekin ummæli verði dæmd dauð og ómerk, María Lilja greiði henni tvær milljónir í miskabætur, tvö hundruð þúsund til að birta forsendur dómsins í einu dagblaði og málskostnað.

Ummælin eru eftirfarandi:

  1. Varað við fúskurum í barnavernd.
  2. Auk barnaverndaryfirvalda hefur embætti ríkissaksóknara einnig varað við starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar Vörn fyrir börn vegna tilfella þar sem forsvarsfólk þjónustumiðstöðvarinnar hafi gert tilraunir til þess að fá gögn í máli ólögráða einstaklinga á fölskum forsendum og án samþykkis forsjáraðila.
  3. Kristín Snæfells, stofnandi og forstöðukona samtakanna Vörn fyrir börn, sem nýverið opnaði þjónustumiðstöð fyrir börn sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi, tók þátt í því að láta ungt barn ljúga grófu kynferðisofbeldi upp á föður sinn í forræðisdeilu.
  4. Í síðasta viðtali við Barnahús greindi barnið svo frá þeim þrýstingi sem það sætti af hendi móður sinnar og Kristínar til að segja ósatt um föður sinn.

Áður en til málflutnings kom gáfu þær Kristín og María Lilja skýrslu. Meðal þess sem Kristín sagði var að hún hefði tekið umfjöllunina afskaplega nærri sér. „Þetta var hrikalegt högg,“ sagði hún og að allt sem María Lilja skrifaði væri rangt. Hún hefði þurft að leita til sálfræðings og samtökin Vörn fyrir börn væru í algjörum ólestri eftir þetta. Hún stæði þar ein eftir en var með tvo starfsmenn þegar umfjöllunin var birt. „Þetta eyðilagði alla þá uppbyggingu sem ég var búin að setja í gang. Henni var slátrað áður en hún fékk nokkurn tíma til að sanna gildi sitt.“

Hún tók fram að enn væri opið hjá samtökunum og hún svaraði öllum þeim sem hefðu samband. „Ég vík ekkert frá því ég tel að ég geti hjálpað.“

María Lilja sagðist hafa fengið veður af því að yfirvöld hefðu ákveðnar áhyggjur af starfsemi samtakanna og henni hefði því sem blaðamaður borið skylda til að greina frá þeim áhyggjum. Hún hefði bæði ráðist í gagnaöflun auk þess að hafa rætt við fólk sem veitti henni heimildir. Hún geti hins vegar lögum samkvæmt ekki nafngreint heimildarmenn sína. 

Fúskari ófaglærður eða svikari?

Erlendur Þór Gunnarsson, lögmaður Kristínar, sagði staðhæfingar Maríu Lilju sem kæmu fram í nefndum ummælum ekki eiga við rök að styðjast. Þau væru ærumeiðandi og til þess fallin að kasta rýrð á Kristínu og samtökin. Hún væri í ítrekaðri og ítarlegri umfjöllun Fréttablaðsins og Vísis.is borin röngum og þungum sökum. Miklar kröfur væru gerðar um að þeir sem settu fram ærumeiðandi staðhæfingar hefðu sannanir fyrir þeim, þær hefði María Lilja ekki.

Hvað varðar fyrstu ummælin, Varað við fúskurum, sagði Erlendur að almennur málskilningur væri að fúskari merkti skussi í starfi og hálfgerður svikari. Með því að bera þær sakir á þann sem vinnur í barnavernd sé með alvarlegum hætti vegið að æru og starfsemi viðkomandi. Það hafi hún gert með ófyrirleitnum hætti. Fúskari hafi almennt mjög neikvæða merkingu en engar reglur hafi hins vegar verið brotnar í starfseminni eða nokkuð sem réttlætti notkun orðsins.

Einar Þór Sigurðsson, lögmaður Maríu Lilju, benti hins vegar á að merkingin væri ekki „ljótari“ en svo að orðið væri notað yfir ófaglærða einstaklinga í starfi. Sannað væri að starfsmenn samtakanna hefðu verið háskólanemar í lögfræði og sálfræði og það væru engin meiðyrði að nota orðið fúskari í fyrirsögn. Þá væri fyrirsögnin í samræmi við umfjöllunina, að það voru áhyggjur af faglegu starfi samtakanna.

Þessu var Erlendur ekki sammála og benti á að engin krafa væri gerð um að starfsmenn slíkra samtaka uppfylltu tiltekin menntunarskilyrði. Því væri ekki hægt að tala um fúskara í því samhengi, til þess þyrfti að vera skilyrði um menntun.

Yfirlýsing fékkst frá ríkissaksóknara

Hvað varðaði önnur ummæli, um að ríkissaksóknari hefði varað við samtökunum og að forsvarsmenn þeirra hefðu reynt að afla gagna á fölskum forsendum, sagði Erlendur að þetta hefði María Lilja gripið algjörlega úr lausu lofti. Hann vísaði til yfirlýsingar frá ríkissaksóknara um að embættið hefði ekki varað við starfseminni, enda væri það ekki hlutverk ríkissaksóknara. Og þrátt fyrir að það væri rétt að starfsmaður samtakanna hefði óskað eftir gögnum hefði það ekki verið á fölskum forsendum. Það hefði einfaldlega verið send inn ósk um gögn og henni hafnað.

Einar Þór sagði það standa að samtökin reyndu að fá gögn sem þau áttu ekki rétt á, enda brást ríkissaksóknari við með því að koma í veg fyrir afhendingu gagnanna. Þarna hefði hugsanlega verið um ónákvæmni að ræða en fréttin hefði engu að síður verið unnin í góðri trú og María Lilja hefði haft það eftir heimildarmanni sínum, starfsmanni hjá embætti ríkissaksóknara, að embættið hefði varað við samtökunum.

Samtök sprottin upp úr forræðisdeilu

Þriðju ummælin snerust um að Kristín hefði tekið þátt í að láta dótturdóttur sína ljúga til um að faðir hennar hefði beitt hana kynferðisofbeldi. Tengjast þessi ummæli óvæginni forræðisdeildu dóttur Kristínar og barnsmóður dóttur hennar. Erlendur sagði að í þessum ummælum kæmi fram skýr ásökun um að Kristín hefði tekið þátt í refsiverðum og siðferðilega röngum verknaði. Þessi staðhæfing kæmi hins vegar ekki fram í gögnum og með henni hefði verið vegið alvarlega að æru Kristínar. 

Einar Þór sagði hins vegar að þvert á móti bentu gögn málsins til þess að Kristín hefði tekið þátt í að fá dótturdóttur sína til að ljúga upp á föður sinn. Það væri óumdeilt að Kristín hefði verið virkur gerandi í forræðisdeildunni og í raun hefðu samtökin Vörn fyrir börn sprottið upp úr þeirri deilu. Hún hefði statt og stöðugt trúað því að faðir barnsins hefði brotið gegn því án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því. „Slíkar innihaldslausar ásakanir eru þær alvarlegustu sem hægt er að bera upp á nokkurn einstakling.“

Þá sagði Einar Þór að mjög eðlilegt hefði verið að fjalla um þetta, enda gerði Kristín út á að hlúa að börnum sem verða fyrir kynferðisofbeldi og vernda. Á hinum kantinum væri hún að standa að því að saka mann um slíkt án tilefnis. „Það er hlutverk fjölmiðla að upplýsa um þetta. Ef þeir gerðu það ekki væru þeir að bregðast hlutverki sínu.“

Vísaði Einar Þór meðal annars til þess að Hæstiréttur dæmdi föðurnum fullt forræði í málinu og að þetta kæmi fram í gögnum frá Barnahúsi og mati sérfræðinga. „Hér er ekki bara eitt gagn heldur mörg gögn, og frá sérfræðingum, sem öll sýna að Kristín tók þátt í því að saka föður barnsins um kynferðisofbeldi. Það er algjörlega á hreinu að það er ekki hægt að byggja á því að María Lilja hafi ekki haft neitt fyrir sér.“

Að vera eða vera ekki í góðri trú

Erlendur sagði hins vegar og áréttaði í seinni ræðu sinni, að það kæmi hvergi fram í gögnum málsins eða þeim gögnum sem Einar Þór vísaði í, að Kristín hefði látið stúlkuna ljúga kynferðisofbeldi upp á föður sinn. „Þetta eru ályktanir sem [María Lilja] dregur sjálf og staðhæfir í umfjöllun sinni.“ Hann sagði að umfjöllunin væri sett fram sem hrein og klár sannindi en það væri rangt og María Lilja gæti ekki talist hafa verið í góðri trú. Hún hefði átt að kanna gögn sín betur. Engin ástæða hefði verið fyrir hana að ganga svona langt í umfjöllun sinni. Dómur hennar hefði verið harður og sérlega óvæginn.

Hvað það varðaði sagði Einar Þór að ummælin væru byggð á upplýsingum sem María Lilja var með undir höndum og viðtölum við fólk sem þekkti til. „Þessi ummæli eiga sér stoð í trúverðugum gögnum og upplýsingum sem liggja fyrir í málinu og heimildarmönnum sem hún sem blaðamaður ræddi við. Hún var í góðri trú um sannleiksgildi þeirra upplýsinga og þau voru ekki sett fram gegn betri vitund hennar.“

Dómur verður kveðinn upp 20. mars næstkomandi. 

María Lilja Þrastardóttir
María Lilja Þrastardóttir mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert