Óbreytt afstaða til ESB

AFP

Ekki verður séð að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til baka hafi aukið stuðning við inngöngu í sambandið eða að umsóknarferlinu að því verði haldið áfram sé horft til niðurstaðna skoðanakannana sem Capacent hefur gert á undanförnum mánuðum. Staðan er þvert á móti svo að segja óbreytt.

Ríkisútvarpið birti í dag niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Capacent um Evrópumálin sem gerð var eftir að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu um að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði dregin til baka. Könnunin var gerð dagana 27. febrúar til 5. mars en þingsályktunartillöguna lagði ráðherrann fram 21. febrúar síðastliðinn eftir að þingflokkar beggja ríkisstjórnarflokkanna höfðu samþykkt hana á fundum sínum.

Samkvæmt skoðanakönnuninni eru 56% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 44% henni hlynnt sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti. Capacent kannaði afstöðu fólks til sama álitamáls í nóvember síðastliðnum fyrir samtökin Já Ísland sem hlynnt eru inngöngu í sambandið. Þá reyndust 58% andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 42% henni hlynnt. Samkvæmt því er um mjög litlar breytingar að ræða undanfarna mánuði.

Hliðstæður stuðningur við þjóðaratkvæði 2009

Eins var spurt um afstöðuna til þess að halda viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið áfram í skoðanakönnun Capacent sem birt var í dag. Samkvæmt henni eru 59% því hlynnt en 41% andvíg. Til samanburðar gerði Capacent skoðanakönnun í ágúst á síðasta ári fyrir Já Ísland þar sem 60% voru hlynnt áframhaldandi viðræðum en 40% andvíg. Hliðstæð könnun Capacent fyrir Já Ísland í mars fyrir ári sýndi 61% hlynnt áframhaldandi viðræðum en 39% andvíg.

Ennfremur var spurt í skoðanakönnun Capacent frá í dag um stuðning við að þjóðaratkvæði færi fram um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu. Samkvæmt könnuninni eru 72% hlynnt því en 21% því andvíg. Ekki verður séð að Capacent hafi gert skoðanakönnun í þessa veru frá því sumarið 2009 þegar fyrirtækið kannaði afstöðu fólks til þess að þjóðaratkvæðis færi fram um umsókn að Evrópusambandinu sem þá var fyrirhuguð.

Samkvæmt skoðanakönnuninni, sem gerð var fyrir samtökin Heimssýn sem andvíg eru inngöngu í sambandið, töldu 76,3% mikilvægt að slíkt þjóðaratkvæði færi fram en 17,8% voru því ósammála. Athygli vekur hversu hliðstæð hlutföll er um að ræða og í könnun Capacent sem Ríkisútvarpið greindi frá í dag. Ekki kom hins vegar til þess að þjóðaratkvæði færi fram um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert