Már vill rannsókn á eigin máli

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Rósa Braga

„Tel ég að ég hafi á engan hátt brotið af mér í máli þessu. En ásakanir hanga í loftinu og reynt er að kynda undir ómálefnalegri umræðu sem er mjög skaðleg fyrir mig og Seðlabanka Íslands,“ sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í yfirlýsingu rétt í þessu.

„Í því ljósi beini ég því til bankaráðs að það hlutist til um að hraðað verði eftir föngum þeim þætti athugunar á málinu sem að mér snýr og að sem fyrst verði skorið úr um hvort ástæða sé til að ætla að ég hafi gerst á einhvern hátt brotlegur í þessu.“

Már sagði mikið af gögnum mundu verða lagt fram og að málið færi síðan í athugun. Gaf hann til kynna eftir fundinn að athugunin myndi taka eina og hálfa viku. Hann kvaðst ekki telja að málið hefði áhrif á áhuga hans á að sækja aftur um starfið.

Gaf hann til kynna að bankaráð myndi rannsaka málið.

Már boðaði til blaðamannafundar upp úr klukkan fjögur síðdegis í dag, eða um hálfri klukkustund eftir að fundur bankaráðs hófst.

Fundur bankaráðs stóð yfir þegar blaðamannnafundurinn hófst.

Morgunblaðið greindi frá því sl. föstudag að Seðlabankinn hefði greitt málskostnað Más vegna málsóknar hans gegn bankanum. Höfðu þær upplýsingar þá ekki komið fram áður.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu Más gegn Seðlabankanum í október 2012 og staðfesti Hæstiréttur dóminn 24. apríl 2013, með viðbótarskýringum.

Heildarkostnaður Seðlabankans vegna málsins var ríflega 7 milljónir króna og voru þar af um 4 milljónir tilkomnar vegna lögfræðistofu seðlabankastjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert