Djörf tíska við sundlaugina

Það var mikið um dýrðir í Laugardalslauginni í kvöld er hársnyrtinemar í Tækniskólanum héldu útskriftasýningu sína. Nemarnir tóku sýninguna skrefinu lengra en venjulega, greiddu ekki aðeins sýningarfólkinu heldur hönnuðu einnig föt þeirra.

Björn Berg Pálsson, einn af útskriftarnemunum, segir að mikill undirbúningur hafi verið að baki sýningunni. Útskriftarnemarnir eru tólf og tóku um 70 módel þátt í sýningunni sem fór fram við við innilaugina í Laugardalslauginni.

Björn segir að nemarnir hafi greitt módelunum, búið til hárskraut, hannað og saumað kjóla á sýningarstúlkurnar. Hann segir ekkert eitt þema hafa verið í gangi heldur hafi allir átt að tjá sig með sínum hætti. „Ekkert stoppaði okkur í því að vera við sjálf,“ segir Björn um sýninguna. Hann segir að kennarar hafi verið þeim til aðstoðar en að þau hafi þó séð um flest sjálf, allt hvort sem það laut að hönnun, hári eða auglýsingum.

Dansarar úr Dansskóla Brynju Péturs komu einnig fram á sýningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert