Árni Páll: Baráttan snýst um þjóðarhag

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, leggur til að tillaga ríkisstjórnarinnar í ESB-málinu í óbreyttri mynd verði lögð til hliðar, lagður verði grunnur að alvöru greiningu á hagsmunum þjóðarinnar og síðan gangi landsmenn til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Þetta kom fram í ræðu Árna Páls á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem hófst kl. 13. 

Hann sagði tillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu vera hneyksli, loforð hefði verið brotið og þjóðin virt að vettugi í málinu. Þá benti hann á, að ekkert hagsmunamat hefði verið gert, þ.e. um kosti við aðild í samanburði við meinta ókosti.

Ekki beðið um hagsmunamat

„Á fundum utanríkismálanefndar um skýrslu Hagfræðistofnunar hefur komið fram hjá skýrsluhöfundum að þeir voru aldrei beðnir um hagsmunamat,“ sagði Árni Páll og bætti við að það hefði aldrei verið ætlunin að leita bestu upplýsinga eða vanda til verka. Markmiðið hefði verið að komast að fyrirfram ákveðinni niðurstöðu. 

Hann spurði hvað mælti gegn því að þjóðin vísaði veginn áfram í Evrópumálunum, ef það reynist stjórnmálaflokkunum ofviða. „Það er ekkert ómögulegt við að fara að vilja þjóðar. Það hefur margoft verið gert,“ sagði Árni Páll. 

Hann sagði ennfremur, að sú barátta sem nú standi yfir snúist ekki um Samfylkinguna heldur þjóðarhag. 

Óþol gagnvart gömlu stjórnmálahefðinni

Þá sagði Árni Páll, að grundvallarbreyting hefði orðið á íslenskum stjórnmálum eftir hrun. „Það er óþol gagnvart hinnar gömlu íslensku stjórnmálahefð. Um áratugi var dagskrárvald stjórnmálaforystunnar algert og kæfandi. Hún ákvað hvað skyldi fjallað um og hvernig og hvenær, óháð þjóðarþörfum,“ sagði hann.

Árni Páll bætti því við forystumenn ríkisstjórnarinnar, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, hefðu gengið út frá því nú að þetta kerfi virkaði eins og það hefði alltaf virkað.

„En það gerir það bara ekki lengur. Þess vegna eru þeir búnir að magalenda úti í mýri,“ sagði Árni Páll. 

Atvinnugreinum mismunað

Þá sakaði hann stjórnarflokkana um að mismuna atvinnugreinum og vinna gegn atvinnufrelsi. Þeir endurnýttu gamlar íslenskar sérlausnir til að tryggja vildarvinum forgang fram yfir aðra.

„Hún er ráðlaus um afnám hafta. Hún hyglar þeim sem ríkastir eru og leggur auknar álögur á allt millitekju- og lágtekjufólk. Atvinnustefnan: Ríkisrekin áburðarverksmiðja til að blása ungu fólki í brjóst tiltrú á framtíðina,“ sagði formaður Samfylkingarinnar.

Hann ræddi einnig stöðuna í makríldeilunni. Í ræðunni kom fram, að alþjóðasamningur um makríl án Íslands minnti alla á að utanríkisstefna Íslands væri óstyrk og vissi ekki hvert skuli halda né hvers vegna. 

Árni Páll bendi einni orðum sínum að þeim mótmælum sem hafa staðið yfir á Austurvelli að undanförnu. Hann tók fram að þau hafi verið friðsæl. „Þetta er uppreisn gegn öfgaöflunum sem vilja ekki samtal. Vilja ráða öllu og telja sig betur hæf til að vita hvað okkur er fyrir bestu en við sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert