Vilja ekki innheimta í óvissu

mbl.is

„Þetta hefur ekki haft nein rosaleg áhrif fyrir okkur beint en þetta hefur haft áhrif á okkar farþega og ferðamenn sem eru að koma til Íslands, að þurfa að upplifa svona,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Iceland Excursions en gjaldtaka hófst við Geysissvæðið í morgun. 

„Það sem liggur fyrir í þessu máli er fyrst og fremst að við treystum okkur til þess að vera milliliðir og standa í gjaldtöku fyrir landeigendur þegar vafi leikur á um lögmæti þessarar gjaldheimtu og við tilkynntum þeim það að við getum ekki staðið í því og verið ábyrgir gagnvart öðrum ef gjaldtakan yrði dæmd ólögleg,“ segir Þórir. 

Gjaldtakan ekki undanþegin virðisaukaskatti

Einnig segir Þórir að landeigendur séu að sniðganga virðisaukaskattslög. „Við höfum einnig vakið athygli á því að við teljum að gjaldið eigi að bera virðisaukaskatt, að verið að sniðganga virðisaukaskattslögin. Þarna er verið að greiða gjald af stígum og svoleiðis og það er alveg klárt í virðisaukaskattslögum að slíkt er ekki undanþegið virðisaukaskatti.“ 

„Við höfum líkt þessu við það að þú sért íbúi í blokk og meirihlutinn ákveður að leigja út stigaganginn til einkahlutafélags og að þá verðir þú bara að borga félaginu fyrir að komast í íbúðina þína, þ.e. eign ríkisins sem er hverasvæðið. Svona hlutir geta ekki gerst nema í samstarfi allra eigenda,“ segir Þórir. 

Náttúrupassinn andvana fæddur

Þórir telur að ef gjaldið verður dæmt löglegt verði hugmyndin um náttúrupassann andvana fædd. „Ef þetta gjald yrði dæmt löglegt af dómstólum þá er komin upp allt önnur staða. Þá lendum við í því að greiða þetta gjald sjálfir í upphafi vegna þess að við erum búin að selja ferðir langt fram í tímann, það tekur tíma að setja þetta inn í gjaldskrána. Ef gjaldið yrði dæmt löglegt og fyrir liggur fyrir að landeigendur geti farið af stað með gjaldheimtu þá er þessi hugmynd um náttúrupassann andvana fædd. Og við viljum horfa til þess að vera með miðlæga gjaldtöku til að fjármagna uppbyggingu á ferðamannastöðum. Við viljum halda áfram þessari upplifun ferðamanna, undrun þeirra og ánægju að þurfa ekki að greiða fyrir að ferðast um landið alveg eins og við viljum halda áfram þeirri upplifun að þau geti drukkið vatnið úr krananum. Þetta er staða sem við viljum ekki breyta,“ segir Þórir að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert