Kvikusöfnun meiri í Heklu en árið 2000

Hekla séð frá Gunnarsholtsvegi
Hekla séð frá Gunnarsholtsvegi mbl.is/Sigurður Bogi

„Hekla fór fram úr sjálfri sér 2006,“ sagði Páll Einarsson, prófessor í jarðvísindum við Háskóla Íslands. Frá því hefur mátt vænta eldgoss í þessu sögufrægasta eldfjalli Íslands.

Hekla sígur saman í eldgosum þegar þrýstingur minnkar í kvikuhólfinu undir fjallinu. Svo safnar hún aftur kviku í hólfið og rís hægt og rólega þar til hún gýs næst. Tvö síðustu eldgos, árið 2000 og 1991, komu um það bil sem þenslan var að fara fram úr því sem hún hafði farið hæst fyrir síðasta gos þar á undan. Árið 2006 fór Hekla fram úr þenslunni sem hún var komin upp í fyrir gosið árið 2000. Landrisið hefur haldið áfram í átta ár fram yfir það sem hún reis hæst áður og er orðið talsvert meira en áður hafði mælst.

„Þetta eru ekki stórar tölur og ekki rosalegt ris í sjálfu sér,“ sagði Páll. Hann sagði að við landrisið myndist eins og nokkuð víðfeðm bunga á landinu í kringum Heklu. Ástæða umfangsins er hvað upptökin standa djúpt í jörð. Kvikuhólfið undir Heklu er fyrir neðan 15 kílómetra dýpi. Það er dýpra en þekkist hjá öðrum íslenskum eldfjöllum. Landrisið verður því ekki mikið en þess gætir á stóru svæði.

Páll sagði að það hve lengi land hefur risið við Heklu sé ekki endilega vísbending um að næst megi vænta stærra eldgoss en þeirra sem urðu 1991 og 2000. „Kvika sem hefur safnast fyrir næsta gos er orðin umtalsvert meiri en hún var við tvö síðustu gos. En hvort hún skilar sér öll upp á yfirborðið er annað mál og ekki alveg ljóst hvað stjórnar því,“ sagði Páll. Hekla er þekkt fyrir að láta lítið á sér kræla fyrr en skömmu áður en hún gýs.

„Hún gefur langtímamerki, sem við höfum fylgst með, og svo gefur hún skammtímamerki um það bil sem kvikan er á leiðinni upp. Við erum nokkuð viss um að við munum sjá þau, ef hún gýs, en þá verður fresturinn orðinn stuttur,“ sagði Páll. Þegar Hekla gaus 2000 liðu einungis 79 mínútur frá því að fyrsti skjálftinn varð og þar til gosið byrjaði. Þó var það lengsti fyrirvari sem þekkist hjá Heklu. Í fyrri gosum var fyrirvarinn styttri, að sögn Páls.

Varasamt að ganga á Heklu

Hekla er vel vöktuð með jarðskjálftamælum og fleiri mælitækjum. Mælabúnaðurinn er betri og fullkomnari nú en nokkru sinni fyrr. Hægt er að staðsetja jarðskjálftana mun betur en áður. Jarðskjálftamælar voru komnir í kringum Heklu í tveimur síðustu gosum. Þeir sýndu smáskjálftavirknina vel og hvenær hún byrjaði í báðum tilvikum.

Páll sagði að skammur fyrirvari á eldgosum í Heklu valdi því að ferðir fólks á fjallið og í næsta nágrenni þess séu áhyggjuefni. „Það er ekki sérlega heppilegt að vera utan í Heklu eða uppi á henni þegar gos byrjar,“ sagði Páll. „Fresturinn er of stuttur til þess að hægt sé að gefa fólki á staðnum viðvaranir. Því hefur verið mælst til þess að fólk sé ekki að ganga á fjallið á meðan það er í þessu ástandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert