Veiddi rúm fjögur kíló af auðnutittlingum á klukkustund

Jón Magnússon fékk 211 fugla í búrið í einu hali.
Jón Magnússon fékk 211 fugla í búrið í einu hali. Ljósmynd/Jón Magnússon

Heil 4,2 kíló af auðnutittlingum flugu inn í fuglagildru Jóns Magnússonar, fuglamerkingamanns á Akureyri, í fyrradag. Í ljósi þess að hver fugl vegur 16-19 grömm, eru þetta talsvert margir fuglar.

„Ég skaust til vinkonu minnar sem er með gróinn garð, þar sem mikið er af fugli og setti þar upp nýju gildruna mína,“ segir Jón. „Þegar ég kom aftur eftir klukkutíma voru þessi ósköp komin í hana. Mér féllust einfaldlega hendur.“

Umrædd gildra er ný smíði Jóns og var hann að reyna hana í fyrsta skipti. Í gildruna setur hann fuglafræ og á henni eru tvö lítil op sem fuglarnir fljúga inn um, en finna síðan ekki leið til að komast út. Jón tekur síðan fuglana, einn í einu, vigtar þá, mælir og merkir og sleppir þeim aftur út í frelsið.

Hafa veitt 1.800 frá áramótum

Jón er meðal afkastamestu fuglamerkingamanna landsins og hefur merkt fugla í samstarfi við Náttúrufræðistofnun frá árinu 1986. Hann vinnur gjarnan með Sverri Thorstensen á Akureyri að merkingunum og saman hafa þeir merkt um 1.800 fugla frá áramótum, sem þeir gera í frítíma sínum í sjálfboðavinnu. Jón segir athæfi sitt stundum hafa vakið nokkra furðu fólks og hefur hann verið vændur um að veiða sér til matar eða að veiða fyrir kött eða kyrkislöngu. 

En hvað skyldu 4,2 kíló af auðnutittlingum vera margir fuglar? 

„Þeir eru 211,“ svarar Jón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert