Frelsi í utanríkisviðskiptum mikilægt

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Golli

„Staða Íslands í utanríkisviðskiptum er að mörgu leyti öfundsverð,“ segir meðal annars í skýrslu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, sem lögð hefur verið fram á Alþingi og ráðherrann mun væntanlega flytja síðar í vikunni. Þannig tryggi EES-samningurinn aðkomu Íslands að innri markaði Evrópusambandsins á sama tíma og landið sé hluti af víðfeðmu neti fríverslunarsamninga á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem nái til stórs hluta heimsins.

„Þar að auki höfum við tækifæri til að sækja á nýjar lendur á eigin forsendum eins og sannast hefur með metnaðarfullum fríverslunarsamningi okkar við fjölmennustu þjóð heims, Kínverja, sem og eina þá fámennustu, frændur okkar í Færeyjum. Í þessu felst frelsi og mikill sveigjanleiki sem er íslensku efnahagslífi gríðarlegur styrkur. Slíkum sveigjanleika og drifkrafti væri ekki til að dreifa nema vegna sjálfstæðis okkar til athafna á sviði utanríkisviðskipta.“

Mörg tækifæri fyrir íslenskar vörur og hugvit

Fram kemur að nýir markaðir fyrir íslenskan varning og hugvit hafi orðið til á skömmum tíma og íslenskt athafnafólk sé að störfum um víða veröld. Ör hagvöxtur og hröð þróun í alþjóðaviðskiptum skapi spennandi tækifæri fyrir Íslendinga í nýmarkaðsríkjum eins og til að mynda Brasilíu, Indlandi og Víetnam. Þá standi Íslendingar vel að vígi með að nýta sér möguleikana sem birtast í auknum kaupmætti og breyttum neysluvenjum í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku.

„Tækifærin sem Íslendingar standa frammi fyrir eru þó líka vel sýnileg keppinautum okkar. Samkeppni um markaðsaðgang er mikil og vegna þráteflisins í samningaviðræðum aðila innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur orðið mikil aukning í gerð tvíhliða og svæðisbundinna fríverslunarsamninga á undanförnum árum. Þar er oftar en ekki kapphlaup um aðgengi. Þannig geta tafir á gerð samninga þýtt það að farið er á mis við tækifæri.“

Einnig er rætt í skýrslunni um norðurslóðir og mikilvægi þróunar mála þar fyrir hagsmuni Íslands. Bent er á að af aðildarríkjum Norðurskautsráðsins sé Ísland eina ríkið í þeirri stöðu að allir borgarar þess búi á því svæði. „Menning okkar og sjálfsvitund verður ekki slitin úr þessu samhengi og á þjóðin að nýta þetta á sem flestum sviðum. Málefni norðurslóða eru kjarninn í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar og endurspeglar stjórnarsáttmálinn þessa hugsun.“

Friður og öryggi ekki sjálfsagður hlutir

Evrópumálin eru einnig rædd og lögð áhersla á að samskipti Íslands við Evrópusambandið verði áfram í öndvegi þó forsendur hafi breyst. Samstarfið snúist fyrst og fremst um EES-samninginn líkt og undanfarna tvo áratugi. „Evrópa er einn okkar mikilvægasti markaður og við viljum áfram tengjast Evrópu og Evrópusambandinu traustum böndum. Við höfum sótt fram á sameiginlegum evrópskum markaði, markað okkur sérstöðu og rekið þar hagsmunagæslu gagnvart nágrönnum okkar.“

Þá er fjallað um öryggismál með tilliti til stöðunnar í heimsmálunum. Ekki sé gefið að friður, öryggi og stöðugleiki ríki í þeim heimshluta sem Íslendingar byggi þó slíku sé gjarnan tekið sem gefnum hlut. Vísað er til stöðu mála í Úkraínu í því sambandi. Enn sé allt óvíst hvernig þróun mála verði í þeim efnum. „Friður og öryggi stórs hluta Evrópu er í húfi og það er hlutverk Íslendinga að standa vaktina með samstarfsaðilum okkar og leggja lóð á vogarskálar svo friðvænlegt verði á ný.“

Skýrsla utanríkisráðherra í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert