Snjómugga víða á landinu

Holtavörðuheiði
Holtavörðuheiði mbl.is/Gúna

Víða á landinu verður snjómugga og skafrenningur fram á kvöld og suðaustanlands talsverð ofanhríð og hvasst allt austur á firði. Suðvestan- og sunnanlands mun hins vegar lægja og rofa mikið til eftir klukkan 16 til 18 og jafnframt hlýnar upp fyrir frostmark á láglendi.

Snjóþekja er á Reykjanesbraut og hálkublettir á Grindavíkurvegi.

Hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir nokkuð víða á Suðurlandi. Hálkublettir og skafrenningur eru á Reynisfjalli við Vík.

Á Vesturlandi eru hálkublettir nokkuð víða. Hálka er á Fróðárheiði og snjóþekja á  Svínadal.

Á Vestfjörðum er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Þæfingsfærð og skafrenningur á Klettshálsi og Kleifaheiði. Víða er skafrenningur á Vestfjörðum.

Þæfingsfærð og skafrenningur er yst á Siglufjarðarvegi, vegfarendur beðnir að sýna sérstaka aðgát vegna snjóflóðahættu.

Það er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum á Norðurlandi. Ófært er á Hólasandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Sandvíkurheiði og Hólaheiði og ófært í Hófaskarði.

Opið er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og þar er snjóþekja og skafrenningur og óveður við Biskupsháls. Snjóþekja er á Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er snjóþekja á flestum leiðum. Ófært og óveður er á Fjarðarheiði. Einnig er ófært og skafrenningur á Vatnskarði eystra en mokstur stendur yfir. Á Fagradal er snjóþekja og skafrenningur en snjóþekja og snjókoma  á Oddsskarði. Snjókoma eða éljagangur með suðausturströndinni og snjóþekja suður að Jökulsárlóni. Hálkublettir og óveður er í Öræfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert