Vél á leið frá Keflavík hvarf árið 1970

Kort/Elín Esther

Mörgum þykir með öllu óskiljanlegt að stór flugvél geti horfið. Þetta hefur þó gerst nokkrum sinnum. Ein horfnu vélanna var á leið frá Keflavík til Kanada árið 1970. Um borð voru 23, 15 farþegar og átta í áhöfn.

Um borð í malasísku farþegaþotunni sem nú er leitað voru 239 manns. Hún hvarf 8. mars á leið sinni frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína.

Ekkert hefur enn spurst til hennar.

Frá árinu 1948 hafa 87 flugvélar, sem taka fleiri en 14 farþega, horfið. Flestar þeirra hafa enn ekki fundist, samkvæmt upplýsingum samtakanna Aviation Safety Network.

Ekki er lengra síðan en árið 2009 er stór farþegaþota Air France hvarf. Um borð voru 209 farþegar og tólf manna áhöfn. Vélin var á leið frá Brasilíu til Frakklands en hrapaði í Atlantshafið. Hún var af gerðinni Airbus A330-203. Fimm dögum eftir hrapið fannst loks brak úr vélinni og einnig fundust tvö lík. Það var þó ekki fyrr en í maí tveimur árum síðar að flugriti hennar fannst. Árið 2012 var svo gefin út skýrsla um slysið. Hraðamælar vélarinnar höfðu bilað, líklega vegna ísingar. 

Borðuðu líkin til að lifa af

22. mars árið 1957 hvarf vél bandaríska flughersins suðaustur af Tókýó í Japan. Um borð voru 57 farþegar og tíu manna áhöfn. Lík þeirra fundust aldrei.

13. október árið 1972 hvarf vél úrúgvæska flughersins í Andes-fjöllunum í Suður-Ameríku. Um borð voru 45 manns, m.a. ruðningslið. 72 dögum síðar tókst leitarhópum að finna þá sem lifðu slysið af. Í ljós kom að þeir höfðu m.a. lagt lík félaga sinna sér til munns til að halda lífi.

Hvarf 47 mínútum eftir flugtak frá Keflavík

18. júlí árið 1970 hvarf vél sovéska flughersins af ratsjá um 47 mínútum eftir flugtak frá Keflavík, að því er fram kemur m.a. á vefnum Aviation Safety Network. Um borð voru 23, 15 farþegar og átta í áhöfn. Vélin var af gerðinni Antonov 22. Hún var á leið til Sydney í Kanada en þaðan átti hún svo að fljúga til Lima í Perú. Þangað átti vélin að flytja hjálpargögn, m.a. lyf og matvæli. Vélarinnar var leitað í júlí og ágúst, m.a. með þátttöku NATO. Brak úr vélinni fannst sem og björgunarbátur. Talið er hugsanlegt að sprenging hafi orðið um borð með þeim afleiðingum að vélin hrapaði. Minningarreitir um þá sem fórust eru bæði í Moskvu og Lima.

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um horfnar flugvélar:

  • Frá árinu 1948 hafa fimm flugvélar, sem taka meira en 14 farþega, horfið í Bermúda-þríhyrningnum.
  • Á tímabilinu hafa nítján flugvélar af gerðinni DC-3 horfið. 
  • Að meðaltali hafa 13 farþegar horfið með hverri vél.
  • Á tímabilinu hafa að meðaltali horfið 1,2 flugvélar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert