Felldu tillögu um áskorun til Alþingis

Selfoss.
Selfoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjórn Árborgar felldi í dag tillögu sem lögð var fram um áskorun til Alþingis um að taka til baka þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Í greinargerð fulltrúa S-listans í Árborg, sem lagði fram tillöguna, segir að spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eigi að ráða úrslitum.

„Undirrituð telja að hér sé um að ræða svo stórt hagsmunamál að eðlilegt sé að þjóðin fái aðkomu að ákvörðun um framhald þess. Í ljósi þeirrar staðreyndar að yfir 51.000 Íslendingar hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að sýna þjóðinni þá virðingu að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu um málið leggjum við þessa tillögu fram,“ segir í greinargerð þeirra Eggerts Vals Guðmundssonar og Örnu írar Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúa S-lista.

Tillagan var felld með 6 atkvæðum gegn 2 atkvæðum S lista. Fulltrúi VG í bæjarstjórn sat hjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert