Fundu tvær nýjar tegundir

Kransþörungurinn Chara aspera líkist tegundinni Chara virgata sem hér er …
Kransþörungurinn Chara aspera líkist tegundinni Chara virgata sem hér er sýnd. Eintakið er allt að 8 cm að hæð. Af vef Náttúrustofu Kópavogs

Áður hefur verið sagt frá fundi sverðnykru (Potamogeton compressus) sem er ný háplöntutegund í flóru Íslands. Nú hafa tvær tegundir til viðbótar bæst við flóru íslenskra vatnaplantna og að auki bíða þrjár eftir að tegundagreining verði staðfest. Allar fundust tegundirnar við rannsóknir Náttúrufræðistofu Kópavogs í stöðuvötnum víða um land, en þær hafa staðið yfir undanfarin tvö sumur í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og eru styrktar af Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í frétt á vef Náttúrustofu Kópavogs.

Nýju tegundirnar tvær eru kransþörungar sem bera fræðiheitið Tolypella canadensins og Chara aspera, en þær hafa ekki hlotið íslensk heiti enn sem komið er. Alls eru nú þekktar sex tegundir kransþörunga hér á landi. Til samanburðar eru þekktar níu tegundir á Grænlandi og 30–40 tegundir í Noregi og Svíþjóð. 

Kransþörungar eru í hópi grænþörunga og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stórvaxnastir allra þörunga í ferskvatni; sumar tegundir geta orðið allt að metri að lengd á meðan aðrar eru mun smávaxnari. Nafn sitt draga kransþörungar af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stönglinum. Kransþörungar eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður eða flækjur á botninum. Nokkrar tegundir lifa í ísöltu vatni.

Sjá ítarlegri frétt hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert