Mál Annþórs og Barkar tekið fyrir

Börkur Birgisson í fylgd fangavarða.
Börkur Birgisson í fylgd fangavarða. mbl.is

Tekist verður á um tillögu verjenda Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar af yfirmatsmönnum þegar fyrirtaka verður í máli ákæruvaldsins gegn þeim fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag. Héraðsdómur samþykkti kröfu verjendanna um yfirmat í lok nóvember síðastliðins.

Fátt hefur gerst í málinu í tæpa fjóra mánuði eða síðan dómari málsins féllst á þá kröfu að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn vegna matsgerðar réttarmeinafræðings og tveggja sálfræðinga. Verjendur hafa raunar fundið erlenda sérfræðinga sem eru hæfir, að þeirra mati, og reiðubúnir að taka starfann að sér. Ríkissaksóknari hefur hins vegar sett sig upp á móti þessum mönnum og talið þá óhæfa.

Um þetta verður tekist í þinghaldinu sem fram fer fyrir hádegi í Héraðsdómi Suðurlands. Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, segir ansi mikinn drátt hafa orðið á málinu. „Það liggja þó að hluta til réttmætar ástæður að baki enda þótt þær útskýri ekki allan þennan drátt.“

Brátt tvö ár frá atvikum

Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að valda dauða samfanga 17. maí 2012. Bráðlega eru því tvö ár liðin frá þeim atvikum sem ákært er fyrir. Annþór og Börkur hafa frá byrjun neitað staðfastlega sök í málinu. 

Við fyrirtöku í byrjun október var tekist á um hvort fá ætti erlenda sérfræðinga til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og yfir skýrslu tveggja prófessora í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.

Verjendur rökstuddu kröfu sína meðal annars með þeim hætti að niðurstaða krufningarskýrslu og réttarmeinafræðings væri ekki sú sama og það eitt væri nóg til að fleiri þyrfti til að fara yfir málið. Þá hefðu engir matsfundir verið haldnir og væri mat Þóru því meingallað að formi og efni.

Dómari féllst á kröfuna og í úrskurði hans sagði að ekki yrði fullyrt að umbeðnar matsgerðir væru þarflausar og kynnu þær að upplýsa málið umfram það sem rannsókn lögreglu hefði gert. Að því virtu og með vísan til þess svigrúms sem játa yrði sakborningum til að afla sönnunargagna í sakamáli yrði fallist á kröfuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert