Vilja ljúka aðildarviðræðum að ESB

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti í gær á fundi bæjarstjórnar áskorun til Alþingis um að tryggja aðkomu þjóðarinnar um framhald aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu.

Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá, að því er segir í tilkynningu.

Í greinargerð sem lögð var fram á fundinum vegna málsins kemur fram að með því að kjósa um málið getur ríkisstjórnin lagt sitt af mörkum til þess að skapa sátt í samfélaginu, unnið gegn sundurlyndi og tortryggni um leið og dregið er úr pólitískri óvissu í íslensku þjóðlífi.

Þá segir, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar taki undir samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. febrúar sl. þar sem stjórnin hvetur til þess að Alþingi tryggi sveitarfélögunum í landinu ráðrúm til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna málsins.

„Það er ekki hægt að segja almennilega til um áhrif aðildar á sveitarfélögin nema með því að ljúka viðræðunum, og þess vegna er það lykilatriðið að það verði gert,“ er haft eftir Gunnari Axel Axelssyni, oddvita Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og formanni bæjarráðs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert