Að skjóta litla flugu með fallbyssu

Lögreglumenn og mótmælendur við Gálgahraun í morgun.
Lögreglumenn og mótmælendur við Gálgahraun í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Í morgun fór fram í héraðsdómi Reykjaness munnlegur málflutningur í máli eins af níu Hraunavinum sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært fyrir brot á lögreglulögum vegna mótmæla í Garðahrauni í október sl. 

Tekist var á um frávísun málsins en verjandi Hraunavinarins krefst þess málinu verði vísað frá dómi. Hann vill einnig að saksóknari í málinu, Karl Ingi Vilbergsson, verði látinn víkja sökum vanhæfis og tekin verði vitnaskýrsla af honum. 

Nímenningunum er öllum gefið að sök að hafa brotið lögreglulög, n.t.t. gerst brotlegir við 19. grein laganna, sem snýst um skyldu til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Hún er svohljóðandi: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“

Verjandi eins sakborningsins, Skúli Bjarnason, flytur málið sem prófmál sem mun þá ef til vill hafa fordæmisgildi fyrir hin málin átta. Hann er lögmaður fjögurra ákærðu í málinu og gera þau öll sömu kröfur og greint var frá hér á undan. 

Sötruðu kaffi í októbersólinni

Skúli sagði í upphafi ræðu sinnar að engir almannahagsmunir krefðust málshöfðunar af þessu tagi. Almennt mætti segja um málið að það væri eins og að skjóta litla flugu með fallbyssu. Ekki hefði legið fyrir mótþrói hjá hinum ákærðu sem eru allir með hreint sakavottorð. Ákærðu hefðu aðeins verið að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til friðsamlegra mótmæla. Skúli skoraði því næst á saksóknara að fella málið niður. 

Skúli sagði fráleitt að saksóknari gæti verið óvilhallur í málinu og hann væri vanhæfur til að höfða málið. Hann hefði verið staddur á Álftanesi daginn sem handtökurnar fóru fram, hann hefði tekið þátt í undirbúningi aðgerða, stýrt yfirheyrslu og afmarkað svæðið í kringum mótmælendurna.

„Er nokkur furða að fólk undrist hvernig að þessu máli er staðið,“ spurði Skúli í ræðu sinni og benti á að stór mál dagaði uppi vegna manneklu og væru felld niður. Í þessu máli væri aftur á móti um friðsamt hugsjónafólk að ræða sem væri ítrekað handtekið og síðan ákært.

„Fólkið sat í rólegheitum í októbersólinni að sötra kaffi og te þegar lögregla kom og sagði því að hafa sig á brott,“ sagði Skúli og gagnrýndi að engin skýrsla væri til af því hvernig staðið hefði verið að handtöku. Sakborningarnir væru eldri borgarar, ellilífeyrisþegar, meðal annars hljómsveitarstjóri og sjávarlíffræðingur, og væri þetta allt saman fyrirmyndarfólk.

Málið hvorki stórt né flókið

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari í málinu, sagðist ekki geta séð að ákæruvaldið hefði lagaheimild til að fella málið niður. Hann sagðist ekki hafa verið á vettvangi á Álftanesi þegar brotin áttu sér stað og því gæti hann komið fyrir dóminn sem vitni.

Karl Ingi hafnaði því einnig að vísa bæri málinu frá dómi vegna vanhæfis. „Ég á að hafa verið á vettvangi, rannsakað og gefið út ákæru,“ sagði Karl Ingi í ræðu sinni. Hann sagðist vissulega hafa komið að rannsókn málsins, lesið yfir spurningar sem rannsóknarlögreglumenn ætluðu að spyrja fólkið, rætt við rannsóknarlögreglumenn milli skýrslutaka og samið ákæruna en ekki gefið hana út.

Karl Ingi sagði málið hvorki stórt né flókið, ákærði í málinu hefði ekki fært sig um set á ákveðnum tíma og um það snerist málið. Ákæran væri skýr og glögg og því væri ekki hægt að vísa því frá vegna galla í ákæru. 

Málið var því næst tekið til úrskurðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert