Aðalmeðferð fyrirhuguð í haust

Mennirnir eru fyrrverandi starfsmenn Landsbankans.
Mennirnir eru fyrrverandi starfsmenn Landsbankans. mbl.is/Kristinn

Fyrirhugað er að aðalmeðferð í máli þriggja fyrrverandi starfsmanna Landsbankans sem sérstakur saksóknari ákærði fyrir markaðsmisnotkun í fyrra muni hefjast 1. október. Fyrirtaka fór fram í málinu í dag og voru greinargerðir tveggja verjenda lagðar fram í þinghaldinu. Einn verjandi fékk frest til 20. maí til að skila sinni greinargerð.

Í málinu sem var tekið fyrir í dag eru þeir Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, Júlíus Steinar Heiðarson og Sindri Sveinsson, sem eru fyrrverandi starfsmenn eigin fjárfestinga, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun. Fram kemur í ákærunni að Júlíus og Sindri hafi framkvæmt markaðsmisnotkunina að undirlagi Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og Ívars.

Þá segir í ákærunni að þeir hafi tryggt „óeðlilegt verð“ á hlutabréfum í bankanum á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 með kaupum á bréfum í bankanum sem „voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna“.

Sérstakur saksóknari ákærði í mars á síðasta ári sex fyrrverandi starfsmenn bankans, þar á meðal tvo fyrrverandi bankastjóra, fyrir meint umboðssvik og markaðsmisnotkun. Í júní í fyrra ákvað dómari hins vegar að málið gegn sexmenningunum yrði rekið sem tvö aðskilin dómsmál. 

Krafan um skiptinguna var lögð fram af verjendum sakborninganna við þingfestingu málsins. Saksóknari mótmælti, líkt og við þingfestinguna, og taldi skiptinguna ekki eiga stoð í lögum.

Í hinu málinu eru þau Sigurjón, Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, ákærð. Fyrirhuguð aðalmeðferð í því máli er 28. apríl nk.

Við þingfestingu málsins í fyrra lýstu allir ákærðu sig saklausa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert