Braut gegn dætrum sínum

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn dætrum sínum. Þá er hann dæmdur til að greiða þeim samtals 1,5 milljónir í miskabætur. Þrír dómarar dæmdu í málinu en einn þeirra skilaði séráliti og vildi dæma manninn í tveggja ára fangelsi.

Ríkissaksóknari gaf út tvær ákærur á hendur manninum. Sú fyrri var gefin út 27. desember sl. og sú seinni í janúar 2014.

Í fyrri ákæru, sem er í þremur liðum, er hann ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum. Hann var sakaður um að hafa brotið á annarri þeirra árið 2005 þegar hún var 11 ára gömul og aftur árið 2009 þegar hún var 15 ára. Bæði brotin áttu sér stað á heimili mannsins. Við aðalmeðferð málsins játaði maðurinn sök að hluta. Þá var hann sakaður um að hafa brotið gegn hinni stúlkunni á heimili sínu árið 2009 þegar hún var 19 ára gömul. Maðurinn neitaði sök hvað varðar þennan ákærulið.

Í seinni ákærunni var manninum gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa í tvígang, annarsvegar í júlí 2013 að og hinsvegar hinn í ágúst sama ár, greitt 50.000 kr. fyrir vændi. Maðurinn játaði sök við aðalmeðferðina.

Yngri dóttir mannsins kærði föður sinn fyrir kynferðisbrot í maí 2013 en sú eldri kærði hann fyrir kynferðisbrot í júlí 2013. Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi sagt að hann hefði verið undir áhrifum áfengis og ekki munað nákvæmlega það sem gerðist. Þetta hafi verið „fyllerísrugl“.

Dómararnir Kolbrún Sævarsdóttir og Símon Sigvaldason segja að yngri stúlkan hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dóminum. Hún sagði m.a. að hún myndi mjög vel eftir því að faðir hennar hefði stungið fingri sínum í kynfæri hennar og að það hefði haft mikil áhrif á líðan hennar. 

Þá kemur fram, að við mat á trúverðugleika framburðar mannsins sé hins vegar til þess að líta að hann hafi verið ölvaður er meint brot átti sér stað. Hann hafi ítrekað borið við yfirheyrslu hjá lögreglu í júní 2013 að hann myndi þar af leiðandi atburði takmarkað. Fyrir dómi neitaði maðurinn hins vegar afdráttarlaust að hafa stungið fingri sínum í kynfæri stúlkunnar. Aðspurður kvaðst hann muna atvik að öllu leyti núna.

Dómurinn lagði hins vegar trúverðugan framburð stúlkunnar til grundvallar niðurstöðunni. Hann hafi fengið stuðning í framburði móður hennar. Það væri því hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði framið þau brot er í 1. ákærulið greinir. Var hann því sakfelldur samkvæmt þeim ákærulið.

Fram kemur að maðurinn, sem hefur ekki hlotið refsingu áður, hafi verið sakfelldur fyrir þrjú alvarleg brot gegn dætrum sínum. Þau hafi öll verið framin á heimili hans þar sem þær hafi mátt með réttu álíta sig öruggar. Þá kemur fram að dráttur á að kæra brotin hafi meðal annars stafað af því að aðstandendur stúlknanna hafi talið að maðurinn hafi ætlað að taka á vanda sínum, en hann brást því trausti. Þá hefur maðurinn verið sakfelldur fyrir vændiskaup.

Arngrímur Ísberg segir í séráliti að það sé sitt mat að yngri stúlkan hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi. Á það sé hins vegar að líta að maðurinn hafi ekki verið ótrúverðugur er hann neitaði að hafa strokið kynfæri stúlkunnar og stungið fingri inn í leggöng hennar. Framburður stúlkunnar styðjist ekki við annað en frásögn móður hennar sem bar að dóttir hennar hefði sagt sér í janúar 2006, nokkrum mánuðum eftir atvikið, hvað faðirinn hefði gert á hlut hennar. Hann tekur fram, að það líði meira en sjö ár þar til stúlkan gefi skýrslu hjá lögreglu. Gegn neitun mannsins taldi hann því ósannað að hann hefði strokið kynfæri stúlkunnar og stungið fingri í leggöng hennar. Því ætti að sýkna hann af þessum atriðum ákæruliðsins, en dæma manninn í tveggja ára fangelsi fyrir önnur brot.

Maðurinn var dæmdur til að greiða yngri dótturinn 900 þúsund krónur í miskabætur og þeirri eldri 600 þúsund kr. Þá var honum gert að greiða 80.000 í sakarkostnað, 480.000 kr. í málsvarnarlaun og 251.000 kr. í þóknun réttargæslumanns stúlkunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert