Fann virka sprengju í Grafarholti

Grafarholt.
Grafarholt. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þeir sögðu mér það að sérsveitin sem afgreiddi sprengjuna segði að hún hefði verið stórhættuleg,“ segir íbúi í Grafarholti sem gekk fram á virka rörasprengju við undirgöng nálægt götunni Geislabaug í hverfinu í dag. Maðurinn hringdi á lögreglu og mættu níu á vettvang til að tryggja svæðið.

Maðurinn greinir frá þessu á facebooksíðu íbúasamtaka Grafarholts í kvöld. „Í dag var ég á gangi með fjölskyldu minni á göngustíg hjá Kristnibraut, við undirgöngin sem liggja undir götuna nálægt Geislabaug. Ég tók eftir því að botninn var farinn úr grænni ruslatunnu á ljósastaur. Ég vissi að hann hefði verið sprengdur af einhverjum strákum sem ég sá hlaupa burtu fyrr um daginn.“

Fleiri taka undir í athugasemdakerfinu og segjast hafa heyrt sprenginguna fyrr um daginn. En svo virðist sem drengirnir hafi annaðhvort verið með fleiri sprengjur í farteskinu eða komið aftur á vettvang. „Þegar betur var að gáð lá rörasprengja fyrir neðan tunnuna sem virtist ekki hafa sprungið. Ég hringdi á lögregluna og samtals komu níu lögreglumenn til að vakta sprengjuna og þar af þrír sérsveitarmenn. Þeir fjarlægðu sprengjuna að lokum með viðeigandi hætti.“

Hann lýsir því þá einnig að í kvöld hafi hann fengið símtal frá lögreglunni. „Þeir sögðu mér það að sérsveitin sem afgreiddi sprengjuna segði að hún hefði verið stórhættuleg.“

Þá lýkur hann færslu sinni með því að hvetja foreldra til að ræða við syni sína, sem mögulega voru þarna á ferð. Þeir séu að öllum líkindum í efri bekkjum grunnskóla. „Ef barn eða starfsmaður borgarinnar hefði tekið sprengjuna upp þá hefði getað farið mjög illa.“

Rörasprengja.
Rörasprengja. Ljósmynd/lögreglan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert