Snjóflóð féll í Sörlagili

Snjóflóð féll úr Sörlagili í Fannardal í nótt.
Snjóflóð féll úr Sörlagili í Fannardal í nótt. Mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Snjóflóð féll úr Sörlagili í Fannardal á Austurlandi í nótt. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum en flóðið féll þar sem unnið er að greftri Norðfjarðarganga. Snjóþungt er í dalnum en mikið hefur rignt á þessum slóðum síðasta sólarhringinn. 

Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands var flóðið af stærðarflokki 3, en það er nógu kröftugt til að skemma mannvirki. Ekki urðu skemmdir á mannvirkjum en flóðið staðnæmdist skammt frá gámum á vinnusvæðinu. 

Tómas Zoëga, snjóflóðaeftirlitsmaður í Neskaupstað, segist í samtali við mbl.is ekki eiga von á því að fleiri flóð falli á þessu svæði á næstu dögum. Hann fór og skoðaði flóðið í morgun og segir það hafa staðnæmst um 10 metra frá veginum. Mikil úrkoma hefur verið á svæðinu að undanförnu og eru allir lækir fullir af vatni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert