„Af hverju var lögregla að hlusta á mig?“

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.

„Af hverju var lögregla að hlusta á mig, verjandann, tala við sakborning og tók það upp?“ Þannig spurði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hæstaréttarlögmaður, úr ræðustóli Alþingis undir liðnum störf þingsins í dag og einnig hvort þingið þurfi ekki að skoða löggjöfina hvað varðar friðhelgi einkalífsins.

Brynjar sagði að gerðar séu miklar kröfur í lögum til þess að heimilt sé að ganga á friðhelgi einkalífsins. Þegar um símhlustun er að ræða sé þannig gerð krafa um að brotið varði átta ára fangelsi eða ríkir almannahagsmunir búi að baki.

Þrátt fyrir það hafi komið fram að íslenskir dómstólar veiti lögreglu nánast undantekningalaust heimild til að beita slíku úrræði. Ísland hafi trónað á toppi þeirri landa sem könnunin náði til og vermdi Moldavía annað sætið.

Brynjar tók reyndar fram að vel kunni að vera að lögregla fari einmitt svo vel með vald sitt að augljós rök séu fyrir því að samþykkja kröfur þeirra um símhlustun. „En mál sérstaks saksóknara eða brot sem þar er verið að rannsaka náðu ekki þessum átta árum. Og þá spyr maður sig hvaða almannahagsmunir kröfðust þess að heimila slíkar aðgerðir.“

Hann sagði símhlustunina algjörlega eftirlitslausa og þingið þurfi að velta fyrir sér hvort ekki þurfi að laga löggjöfina og tryggja að óháðir eftirlitsaðilar fylgist með símhlustunum og tryggi að gögnum sé eytt. Þá þurfi að athuga hvort ekki þurfi að breyta lögum svo dæmi sem þessi komi ekki upp.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert