Kynna frumvörpin kl. 16

Frá fundi í Hörpu í haust þar sem Sigmundur Davíð …
Frá fundi í Hörpu í haust þar sem Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson kynntu hugmyndir um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Ómar Óskarsson

Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra boða til blaðamannafundar í Iðnó klukkan 16:00 í dag.

Efni fundarins er kynning á aðgerðum ríkisstjórnarinnar til lækkunar höfuðstóls húsnæðisskulda. Ítarlega verður fjallað um fundinn á mbl.is í dag.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum eru tvískiptar, annars vegar um 80 milljarða niðurfærsla verðtryggðra íbúðalána og hins vegar 70 milljarða lækkun höfuðstóls íbúðalána með nýtingu séreignarsparnaðar. Upphaflega átti að færa verðtryggð íbúðalán niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Var það sagt samsvara um 13% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur sú breyting orðið á aðferðinni við útreikninga niðurfærslunnar að nú er miðað við almanaksárin 2008 og 2009. Til upprifjunar var 5,8% verðbólga í janúar 2008, 18,6% verðbólga í janúar 2009 og 7,5% verðbólga í desember 2009.

Áfram miðað við 80 milljarða

Herma heimildir blaðsins að áætluð heildarupphæð niðurfærslu verðtryggðra lána sé nánast sú sama og boðuð var á kynningu forystumanna ríkisstjórnarinnar í Hörpu 30. nóvember sl., eða um 80 milljarðar króna. Er það talið til hæginda við útreikninga að miða við almanaksár.

Þá er það talinn kostur að ríkisskattstjóra verði falið að annast umsóknir um skuldaleiðréttingu. Þar sé á ferð miðlæg stofnun, ólíkt því þegar sækja þurfti um 110%-leiðina til einstakra fjármálastofnana.

Niðurfærsla höfuðstóls verðtryggðra lána nær til lána vegna íbúðakaupa til eigin nota, skv. reit 5.2 á skattframtali, og afmarkast niðurfærslan við tímabilið frá 1. jan. 2008 til 31. des. 2009. Miðað er við að lánin myndi stofn til vaxtabóta.

Falli í réttan reit á framtali

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þarf að meta hvort verðtryggð lán sem tekin voru til að endurfjármagna fyrri íbúðalán og greiða upp lausar skuldir, svo sem vegna bílakaupa, endurbóta á húsnæði eða kaupa á sumarbústað, falli að öllu leyti undir leiðréttinguna. Hér er átt við þann hluta nýja lánsins sem er ekki nýttur gagngert vegna fasteignar sem tengist upphaflega láninu. Sá hluti getur fallið utan vaxtabóta og munu umsækjendur þurfa að rökstyðja að allt lánið skuli færast úr lið 5.5 á skattframtali í lið 5.2, þannig að allt lánið myndi stofn til leiðréttingar.

Hér er um að ræða almenna athugasemd við skattframtal og eiga umsækjendur fullan rétt á að sækja um að lán sé fært úr lið 5.5 í 5.2, að því er heimildir blaðsins herma.

Almenn athugasemd á framtali

Samkvæmt heimildum blaðsins gæti það sama gilt um lán hjá fólki sem fær ekki vaxtabætur vegna skerðingarákvæða vaxtabóta, þ.e. vegna hárra tekna eða sterkrar eiginfjárstöðu í fasteign.

Má ætla að umræddir lántakar geti óskað þess að lánið sé fært úr lið 5.5. í lið 5.2. Er hér líka um að ræða almenna athugasemd og ætti afgreiðsla hennar að jafnaði að vera auðsótt, eftir því sem Morgunblaðið kemst næst.

Upplýsingar um hversu margir tilheyri hópunum sem ofangreint á við lágu ekki fyrir í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum blaðsins er sá hópur sem fellur undir lið 5.5. mikill minnihluti af heildarfjöldanum í lið 5.2. Það séu enda mjög fáir eingöngu með íbúðalán í lið 5.5.

Nýtist við kaup á fyrstu eign

Hægt verður að nýta séreignarsparnað upp á 1,5 milljónir kr. að hámarki við kaup á fyrstu eign, ásamt því að lækka höfuðstól lána. Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun. Frumvörp um skuldaniðurfellingu og nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán voru kynnt ráðherrum í gær. ,,Við erum búin að samþykkja þetta í ríkisstjórninni,“ sagði Bjarni.

Áðurnefnd séreignarsparnaðarleið til íbúðarkaupa kemur til viðbótar upphaflegum tillögum.

„Séreignarsparnaðurinn getur nýst til öflunar húsnæðis á næstu fimm árum fyrir þá sem eiga ekki húsnæði í dag. Að þeir geti nýtt sér þann skattaafslátt sem séreignarsparnaðarleiðin býður upp,“ sagði Bjarni.

Eins og fram hefur komið verður skuldaniðurfellingin að hámarki 4 milljónir króna fyrir hverja fasteign. Heildarumfang aðgerðanna er áætlað um 150 milljarðar króna og segir Bjarni áætlað að kostnaður ríkissjóðs verði um 80 milljarðar af niðurfellingu verðtryggðra lána. Hlutur séreignarlífeyrissparnaðarins verði hins vegar 70 milljarðar.

Á aðgerðin að ná til um 70.000 heimila. Frumvörpin fara til umfjöllunar í þingflokkunum í dag og verða síðan lögð fyrir þingið.

Fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að sérstök vefgátt yrði opnuð á vefsvæði ríkisskattstjóra hinn 15. maí næstkomandi þar sem hægt verður að sækja um þessar leiðréttingar. Opið verður fyrir umsóknir í þrjá mánuði. „Þetta á að vera aðgengilegt og ekki erfitt fyrir fólk að sækja um niðurfellingu,“ sagði hann.

Iðnó.
Iðnó. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert