Ýta málinu fram yfir kosningar

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Alþingi mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrrverandi utanríkisráðherra segir ríkisstjórnina ætla að ýta tillögu núverandi utanríkisráðherra um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu fram yfir sveitarstjórnarkosningar. Hann segir þvert á móti æskilegt að klára málið fyrir kosningar og þá helst með því að draga tillöguna til baka.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, gerði málið að umtalsefni undir liðnum störf þingsins. Hann segir að tillaga utanríkisráðherra slíti þjóðina í sundur og að 53 þúsund manns hafi skrifað undir þá kröfu að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Það séu fleiri en kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu alþingiskosningum.

Hann sagði ríkisstjórnina ekkert læra af undirskriftasöfnuninni eða því að þúsundir manna mæti reglulega fyrir framan Alþingi Íslendinga til að styðja við kröfuna. Stjórnarliðar séu aftur á móti að sameinast um að taka málið ekki til afgreiðslu fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar.

Össur sagði að vel væri hægt að ræða málið eftir páska og þá myndi ríkisstjórnin þurfa að standa fyrir því að svíkja loforð sín eða draga tillöguna til baka. Hann skoraði því næst á utanríkisráðherra að draga tillögu sína til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert