Sautján ára á 143 km hraða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi bifreið á Reykjanesbraut, á móts við Ikea, eftir að hafa verið mæld á 143 km/klst. hraða en leyfður hámarkshraði er 80 km/klst.  Ökumaðurinn var 17 ára stúlka og var málið afgreitt með aðkomu foreldris og tilkynningu til Barnaverndar.  

Frá rúmlega miðnætti til hálfþrjú í nótt var lögreglan með eftirlit með umferð um Bústaðaveg. Alls voru um 150 ökutæki stöðvuð. Tveir ökumenn eru grunaðir um ölvun við akstur, fimm ökumenn voru ekki með ökuskírteini meðferðis og tveir voru með útrunnin ökuréttindi. 

Um eittleytið í nótt var ökumaður stöðvaður á Stekkjarbakka grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Annar var stöðvaður á Hringbraut í nótt, einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Eins var farþegi í bifreiðinni með fíkniefni á sér.

Í umferðareftirliti um Reykjanesbraut í suður við Mjódd í nótt voru öll ökutæki, 11 alls, stöðvuð sem óku þessa leið. Í einni bifreiðinni reyndist farþegi, sem var í æfingarakstri með sextán ára ökumann, vera undir áhrifum áfengis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert