Gjaldtöku við Geysi hætt í hádeginu

Kjartan Björnsson rútubílstjóri hjá Snælandi Grímssyni skrifaði þessa færslu á …
Kjartan Björnsson rútubílstjóri hjá Snælandi Grímssyni skrifaði þessa færslu á Facebook áðan. Skjáskot/Facebook

„12 manns að rukka áðan, svo skyndilega allir farnir og engin rukkun í gangi, Ögmundur mætir á eftir og þeir bara farnir,“ skrifar Kjartan Björnsson, bílstjóri hjá Snæland Grímssyni, en hann er staddur við Geysi í Haukadal. Þingmaðurinn Ögmundur Jónasson hafði boðað komu sína til að mótmæla þar gjaldtöku.

Ögmundur, sem er þingmaður Vinstri grænna, skrifaði á vefsvæði sitt í gær: „Það er ekki ýkja langt síðan farið var að rukka ferðamenn við Kerið og síðan við Geysi. Það er hins vegar svo langt um liðið að stjórnvöld hefðu átt að vera búin að taka í taumana og stöðva gjaldtökuna því hún er ólögleg.  

Fyrst stjórnvöld sýna andvaraleysi þarf almenningur að standa á löglegum rétti sínum. Það gerum við einfaldlega með því að mæta á svæðin þar sem ólögleg gjaldtaka fer fram og neita að borga. Verði fólk fyrir áreitni ber að sjálfsögðu að tilkynna það til lögreglu. Ef ekki, þá er það til marks um að gjaldtökumenn sjá sig tilneydda að virða lögin. Þannig tekst að hrinda aðförinni að almannaréttinum.

Ég ætla að gera nákvæmlega þetta við Geysi klukkan hálftvö á sunnudag.“

Samkvæmt því sem Kjartan segir á Facebook var gjald tekið af ferðamönnum í morgun en þegar styttist í komu þingmannsins hurfu gjaldtökumenn á braut. Nú er því opið og ókeypis fyrir almenning að fara um Geysissvæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert