Dropa úr hafinu breytt í hjólastíga

Nokkuð hefur verið kvartað undan bílastæðaskorti við Borgartún.
Nokkuð hefur verið kvartað undan bílastæðaskorti við Borgartún. mbl.is/ÞÖK

Borgarhönnuður segir að nokkuð hafi verið um að kvartanir hafi borist frá frá fólki sem á erfitt með að fá stæði í Borgartúni eftir að bílastæðum við götuna var fækkað úr 88 í 36. Hins vegar sé það stefna borgarinnar að skapa fegurri götumynd og stuðla að annars konar samgöngumáta. Færri bílastæði þar séu fylgifiskur þess. 

„Gagnrýnin á alveg rétt á sér. En þó að fólk sé að skjótast í þjónustu sem er í Borgartúninu þá er samt eftir alveg ótrúlega mikið af stæðum við stofnanir og verslanir. Þetta er því bara dropi úr hafinu sem borgin breytir í hjólastíga. Stefna borgarinnar er að bæta hjólaleiðir og götur og hlúa betur að öðrum ferðamátum,“ segir Pálmi Freyr Randversson, borgarhönnuður. 

17 þúsund bílar á dag 

Fram kemur í fyrirspurn mbl.is til Reykjavíkurborgar að 17 þúsund bílar keyri um Borgartún, milli Sóltúns og Kringlumýrarbrautar á sólarhring. Umferð vestast, næst Snorrabraut, er um fimm þúsund bílar á sólarhring. 30 kílómetra hámarkshraði er við götuna. 

Einnig var spurt hversu margir sæki starf sitt við götuna en tölur þess efnis liggja ekki fyrir.

Pálmi segir að þeir sem  hafi kvartað, geri það einna helst vegna umferðatafa og bílastæðaskorts. Einnig hafi borið á jákvæðum viðbrögðum fólks sem sé ánægt með nýju götumyndina og þær hjólaleiðir sem hafa verið lagðar.  

Gjaldtaka fyrir fólk í snatti 

Auk þess sem stæðum hefur fækkað hefur einnig verið tekin upp gjaldtaka af bílastæðum við Borgartún, Guðrúnartún og í nærliggjandi götum. Hann segir að gjaldtakan henti vel fyrir götuna þar sem fólk eigi gjarnan styttri erindi þar. 

„Borgin opnaði fyrir skammtímastæði við Höfða. Það hentar þessu snatti sem fólk gæti verið í. Þar verður meiri hreyfing á stæðunum og fólk getur sinnt sínum styttri erindum,“  segir Pálmi.

Hann segir að ekki sé hugað að því að fjölga eða fækka bílastæðum frekar. „Það er búið að hanna götuna svona,“ segir Pálmi.

Réttlætanlegt að strætó hægi á umferð 

 Tíðrætt hefur verið um umferðartafir í Borgartúni eftir breytingar á götumyndinni. Gjarnan  hefur verið nefnt að sökum þess að strætó stoppar við einbreiða götuna þá hægi það mikið á umferð.

„Okkur finnst strætó ekki vera að tefja einkabílaumferð. Í strætó er fullt af fólki sem gefur meiri meiningu í umferðarkerfinu en þegar einn eða tveir eru í hverjum bíl. Þar af leiðandi finnst okkur réttlætanlegt að strætó hægi á umferð endrum og eins,“ segir Pálmi.  

Sjá einnig: Íhuga flutning úr Borgartúninu 

Í landsupplýsingakerfi Reykjavíkur kemur ekki fram hversu mörg bílastæði eru …
Í landsupplýsingakerfi Reykjavíkur kemur ekki fram hversu mörg bílastæði eru við Borgartún en samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru flest þeirra inni á lóðum fyrirtækja og í bílakjöllurum. Rósa Braga
Tafir vegna strætó eru ekki vandamál að mati borgarhönnuðar.
Tafir vegna strætó eru ekki vandamál að mati borgarhönnuðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert