ESB stillti Færeyjum upp við vegg

Sigurður Ingi og Jacob Vestergaard í Þórshöfn í morgun.
Sigurður Ingi og Jacob Vestergaard í Þórshöfn í morgun. Ljósmynd/Helga Sigurrós Valgeirsdóttir

„Þótt þungt hafi verið yfir þessum samskiptum lítum við svo á að aðdragandi þriggja ríkja makrílsamkomulagsins hafi verið einstakt tilfelli og muni ekki gerast aftur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um fund sinn með Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, í morgun.

Ráðherrarnir funduðu í Þórshöfn síðdegis í gær og í morgun og var megin-fundarefnið árlegur fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja. Á fundinum var þátttaka Færeyinga í aðdraganda þríhliða samkomulags ESB, Noregs og Færeyja um skiptingu makrílaflans rædd. Ísland var ekki aðili að viðræðum sem leiddu til þríhliða samkomulags og hefur það valdið spennu í samskiptum milli Íslands og Færeyja.

„Það var auðvitað nokkuð þungt yfir fundinum þegar við fórum yfir síðustu lotu makrílsamninganna. Að menn væru að gera þetta bak við luktar dyr og forðast að upplýsa okkur. Ég fór yfir það og lagði áherslu á ónánægju okkar með þá framkomu.

Við höfðum skilning á svörum þeirra. Sjávarútvegur er mikilvægur á Íslandi en hann er auðvitað ennþá mikilvægari hér í Færeyjum. Staða Færeyinga var mjög þröng vegna viðskiptaþvingana Evrópusambandsins og tvíhliða samninga við ESB annars vegar og Noreg hins vegar sem ekki höfðu verið endurnýjaðir. Þær gerðu það að verkum að þeir gátu hvorki selt vörur til ESB né veitt eins og áður í lögsögum ESB og Noregs,“ segir Sigurður Ingi og vísar til viðskiptaþvinganna ESB á hendur Færeyingum vegna veiða á síld og makríl.

Áttu enga aðra útgönguleið

„Færeyingarnir upplifðu sig upp við vegg og að þeir hafi ekki átt neina útgönguleið aðra en að gera það sem í þeirra mögulega valdi stóð, að komast út úr þessari klemmu sem þvinganirnar valda. Við höfum vissan skilning á þeirri stöðu en hefðum hins vegar talið fullkomulega eðlilegt að við værum upplýst um það ferli sem þá fór af stað. Við komum þeim sjónarmiðum okkar mjög skýrt á framfæri.

Við lögðum áherslu á að það er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að auka samstarfið við vestnorræn lönd. Við munum gera það. Við lögðum mikla áherslu á að Færeyingar taki virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi með okkur. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir allra vestnorrænu ríkjanna. Þá reyndar Norðmanna líka, að verja hagsmuni okkar á Norður-Atlantshafi,“ sagði Sigurður Ingi í símaviðtali frá Þórshöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert