Friðrik Þór framleiðir heimildarmynd

Kvikmyndagerðarmaðurinn Friðrik Þór Friðriksson
Kvikmyndagerðarmaðurinn Friðrik Þór Friðriksson Kristinn Ingvarsson

Friðrik Þór Friðriksson mun framleiða heimildamynd um alþjóðlegt farandverkefni listamanna sem kallast Miðbaugs-minjaverkefnið, en aðstandendur verkefnisins hafa verið að skapa listaverk úr sögulegum minjum víða að úr heiminum. Hefur hópurinn, með Jóhann Sigmarsson í fararbroddi, meðal annars fengið efni úr Reykjavíkurhöfn, Berlínarmúrnum, hinni fornu Hamborgarhöfn og hluta frá Hiroshima. „Ég hef fylgst með verkefninu frá upphafi og það er ótrúlegt hvað Jóhann gerir og getur gert með einni hendi. Það að hafa smíðað húsgögn úr 100 ára gömlum bryggjuvið úr Reykjavíkurhöfn er ótrúlegt afrek og ber þessi viður sögu allra íslenskra sjómanna síðastliðin 100 ár,“ segir Friðrik. Jafnframt segir hann að það verði athyglisvert að fylgjast með hópnum sem ætlar í þessa ferð þar sem þetta hafi ekki verið gert áður.

Steingrímur Karlsson mun stýra heimildamyndinni sem er í fullri lengd og fylgja eftir verkefninu sem nú er að hefjast. Hann nam kvikmyndagerð við American Film Institute og hefur unnið fjölda heimildarmynda, tónlistarmyndbanda, auglýsinga og ljósmyndaverkefna.

Segir Steingrímur að minjaverkefnið innihaldi allt sem þarf í efnivið góðrar kvikmyndar; hugmyndina af listamanni með hugsjón sem leggur í vegferð með litríkum hópi listamanna og leiðir áhorfendur um spennandi feril sköpunar, framkvæmda og uppskeru þar sem nytjalistaverk með jákvæðum skilaboðum eru sköpuð úr heimsminjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert