Mótmæla „sleggjudómum“

Frá þingi Kennarasambands Íslands.
Frá þingi Kennarasambands Íslands.

Þing Kennarasamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þingið lýsir furðu sinni á staðhæfingum sem koma fram í auglýsingu í Fréttablaðinu í dag. 

„Sjötta þing Kennarasamband Íslands lýsir furðu sinni á staðhæfingum sem fram koma í auglýsingu Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninga í Reykjavík í Fréttablaðinu í morgun. Í auglýsingunni er staðhæft að skólakerfið hafi brugðist börnunum okkar. Bætt er við að skólakerfið hjakki í sama farinu. Þessum gífuryrðum og sleggjudómum mótmælir þing KÍ harðlega.

Innihald auglýsingarinnar er einnig í fullkomu ósamræmi við orð Halldórs Halldórssonar, borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ávarpaði þing KÍ á þriðjudaginn. Þar sagðist hann vera talsmaður samstarfs og sátta í skóla- og menntamálum.

Slíkt ósamræmi milli þess sem Halldór segir milliliðalaust við kennara á þingi þeirra og þess sem hann segir almenningi í auglýsingunni er óskiljanlegt,“ segir í yfirlýsingu. 

Vill umbylta skólakerfinu

Í auglýsingunni sagði Halldór að skólakerfið hefði brugðist börnunum okkar en fengi þrátt fyrir það að hjakka áfram í sama farinu án aðgerða. 

„Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vill umbylta skólakerfinu til að mæta betur þörfum barna og kennara. Samkvæmt niðurstöðum PISA geta 30% drengja og 12% stúlkna ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla sem er hreinlega óásættanlegt,“ segir í auglýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert