Aldrei fleiri leitað til Stígamóta

Guðrún Jónsdóttir kynnti ársskýrslu Stígamóta á fundi í dag.
Guðrún Jónsdóttir kynnti ársskýrslu Stígamóta á fundi í dag. mbl.is/Golli

Á síðasta ári leituðu 706 einstaklingar til Stígamóta og hafa þeir aldrei verið fleiri. Ný mál voru 358 talsins og hafa ekki verið fleiri síðan 1992 og heildarfjöldi viðtala var 2.409 og hefur ekki verið hærri frá árinu 1996. Aldrei hafa fleiri karlar leitað til samtakanna en í fyrra og voru þeir 25% þeirra sem leituðu til samtakanna vegna sifjaspellsmála.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu Stígamóta sem kynnt var í dag.

Þegar brotaþolum er skipt eftir kyni kemur í ljós að konur voru 82% og karlar 18%. Í 25% sifjaspellsmála voru karlar þolendur og í 9,3% nauðgunarmála.

Meirihluti ofbeldismanna sem vitað er að  beittu sifjaspelli, nauðgun eða kynferðislegri áreitni voru karlar, eða  90,6% og konur voru 3,4%. Upplýsingar vantar um 6% ofbeldimanna.

Þeir sem leituðu til Stígamóta voru á öllum aldri þegar brotin voru framin, eða frá 0 til eldri en 60 ára. Flestir þeirra sem leituðu til Stígamóta voru á aldrinum 18-39 ára, eða 64,4%, en ofbeldið hófst hins vegar hjá 69% þegar þeir voru á aldrinum 5-17 ára.

217 leituðu til Stígamóta vegna nauðgana, þar af voru 17 hópnauðganir og jafn margar lyfjanauðganir. Afleiðingar kynferðisofbeldisins voru margvíslegar, kvíði var þar algengastur og 22% þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra höfðu reynt sjálfsvíg.

11,4%  þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra kærðu til lögreglu og í 29,7% þeirra tilvika var ofbeldismaðurinn ákærður. Dómar voru felldir í flestum þeirra tilvika sem ákært var í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert