Fari eins vel með féð og hægt er

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

Það er sjálfsagt að gera þá skilyrðislausu kröfu til heilbrigðiskerfisins að það fari eins vel með þá fjármuni, sem lagðir eru í það, og hægt er, segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Í Sunnudagsmorgni með Gísla Marteini á RÚV í morgun sagði hann að heilbrigðiskerfið hefði fengið tíu milljarða innspýtingu á fjárlögum á þessu ári miðað við fjárlög síðasta árs.

„Ég er sáttur við þá niðurstöðu,“ sagði ráðherrann en benti þó á að alltaf væru uppi væntingar um að leggja heilbrigðiskerfinu til enn meiri fjármuni.

„Það helgast af því að heilbrigðiskerfið þjónar öllum Íslendingum. Við fæðumst inn í það og deyjum inni í því og eigum í raun viðskipti við það alla okkar tíð,“ sagði Kristján.

En með sama hætti væri sjálfsagt að gera þá skilyrðislausu kröfu til kerfisins að það færi eins vel með fjármunina og unnt væri. Kristján sagði það vera ljóst að á sumum sviðum innan heilbrigðisgeirans væri hægt að gera betur. Afköst og framleiðni í rekstri heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu væru til dæmis afar misjöfn.

„Við eigum svigrúm þarna inni til að auka þjónustu í heilsugæslunni sem nemur 400, 500, eða 600 milljónum króna á ári,“ benti ráðherrann á. Einnig væri hægt að gera betur þegar kæmi að lyfjamálum. Á sumum sviðum værum við heimsmeistarar í áti á pillum, sagði Kristján Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert