Velunnarar Landspítala grípa til sinna ráða

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/Ómar Óskarsson

Hópur manna úr ýmsum stéttum hefur að undanförnu unnið að stofnun landssamtaka, sem vinna skuli að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala. Kjörorð hópsins er „Spítalinn okkar“. Ekki fylgir sögunni hverjir koma að hópnum, en allir eru velkomnir á stofnfund sem haldinn verður á miðvikudag.

Í nafnlausri tilkynningu frá hópnum kemur fram það markmið að endurnýja Landspítala þannig að húsakostur og umhverfi sjúklinga sem og aðstoð starfsfólks þjóni nútímaþörfum.

Vilja byggja á hönnun Nýs landspítala

„Þessum hópi er ljóst að vinda þarf bráðan bug að úrbótum í húsnæðismálum spítalans samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum,“ segir í tilkynningunni. „Forhönnun nýbygginga spítalans liggur fyrir og mikilvægt er að halda áfram þeirri vinnu sem er komin vel á veg.“

Jón Baldvin Halldórsson, upplýsingafulltrúi Landspítala, sendi tilkynninguna á fjölmiðla að beiðni hópsins en ekki kemur fram hverjir standi að baki framtakinu. Jón Baldvin segir að um sjálfstætt framtak sé að ræða sem ekki sé á vegum spítalans sjálfs. Aðstandendur hópsins vilji ekki koma fram fyrr en á formlegum stofnfundi samtakanna.

Vaxandi þörf fyrir nýtt og betra húsnæði

„Þörfin fyrir nýtt og betra húsnæði eykst mjög á allra næstu árum vegna öldrunar þjóðarinnar og nýrra möguleika á sviði læknavísindanna,“ segir í tilkynningunni. Hugmyndir hópsins eru að leitað verði allra mögulegra leiða við fjármögnun og framkvæmd verkefnisins.

Stofnfundurinn verður haldinn að Engjateigi 7 í Reykjavík miðvikudaginn 9. apríl kl. 17.00 og er hann öllum opinn. Þar er ráðgert að leggja fram tillögu að stofnskrá, skýra tilgang félagsins og kjósa 7 manna stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert