Mikilvægt að hvalveiðar séu mannúðlegar

mbl.is/Kristinn

Þrír af hverjum fjórum Íslendingum telja mikilvægt að hvalveiðar séu framkvæmdar á mannúðlegan hátt. Þetta er niðurstaða könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir dýravelferðarsamtökin International Fund for Animal Welfare (IFAW).

Engar opinberar upplýsingar liggja fyrir um það hvort hvalveiðar við Ísland uppfylli þessa kröfu. Engu að síður telur helmingur rúmur helmingur Íslendinga að þær geri það, að því er fram kemur í tilkynningu.

Þá kemur fram að erlendar rannsóknir sýni að hvalveiðiaðferðir séu ómannúðlegar.

Fram kemur í tilkynningunni, að hvalveiðar fari þannig fram að skutli með áfastri taug skotið í dýrin. „Þegar skutullinn hefur rifið sig inn í holdið spennist hann út og situr þannig kyrfilega fastur. Á skutlinum er sprengjuhleðsla sem ætlað er að springa inni í líkama dýrsins og splundra líffærum þess. Dauðatíminn er því sá tími sem líður frá því að skutullinn hittir dýrið og þar til það deyr. Dauðtími getur meðal annars ráðist af því hvar á líkama dýrsins skutullinn lendir eða hvort sprengjuhleðslan springur á réttum tíma eða ekki.“

Capacent Gallup spurði: „Telur þú það mikilvægt eða ekki mikilvægt að hvalveiðar séu frakvæmdar á mannúðlegan hátt?“ 73,3% sögðust þá telja það mikilvægt, 16,1% hvorki né og 10,6% sögðu það ekki mikilvægt.

Könnunin var netkönnun sem framkvæmd var af Capacent Gallup að beiðni International Fund for Anilmal Welfare dagana 17. til 28. október 2013. Heildarúrtaksstærð var 1.450 einstaklingar, 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr viðhorfshópi Capacent Gallup, og svarhlutfall var 62,4%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert