25 bifhjólamenn slösuðust alvarlega

Bifhjólamenn mæta til fundar um öryggismál í Reykjavík.
Bifhjólamenn mæta til fundar um öryggismál í Reykjavík. mbl.is

Fleiri bifhjólamenn slösuðust alvarlega í umferðinni í fyrra en árið 2012. Árið 2012 slösuðust sautján alvarlega og enginn lét lífið. Í fyrra slösuðust 25 alvarlega og einn lét lífið. Árið 2013 er þó undir 5 ára meðaltali áranna á undan en það eru 30 alvarlega slasaðir, samkvæmt tölum Samgöngustofu.

Nú er að renna upp sá tími ársins þegar bifhjólamenn draga fram reiðskjóta sína og renna af stað á vit þeirra ævintýra og ánægju sem fylgir slíkum ferðamáta. Það er mikilvægt að bílstjórar og aðrir vegfarendur hafi það í huga að bifhjólamenn eru stór hluti vegfarenda og það getur reynst erfitt að greina fjarlægð þeirra og hraða. Það getur því borgað sig að gá að minnsta kosti tvisvar áður en bíl er ekið yfir gatnamót eða inn á veg. Samgöngustofa vill árétta mikilvægi þess að bifhjólamenn skerpi á og rifji upp ákveðin mikilvæg atriði áður en lagt er af stað.

  • Gætið þess að öll ljós hjólsins séu í lagi og hafið þau alltaf kveikt.
  • Notið viðurkenndan hlífðarfatnað og hjálm.
  • Hafðu í huga, áður en þú beygir eða ekur inn á veg, að það er ekki víst að bílstjórinn sem þar er á ferð hafi tekið eftir þér. Jafnvel þótt hann hafi litið í áttina til þín.
  • Vertu viðbúin því að þú sjáist ekki þegar ekið er við hlið bifreiðar eða framúr henni.
  • Lestu yfirborð vegarins vel. Á þessum árstíma er oft mikill sandur á vegum og óhreinindi. Vatn, ryk, sandur, brunnlok, og ójöfnur geta verið hættulegar.
  • Vindhviður geta tekið stjórn bifhjólsins úr þínum höndum, sérstaklega þegar ekið er yfir brýr.
  • Hafðu í huga að það getur verið mjög erfitt fyrir aðra vegfarendur að greina hraða og fjarlægð bifhjólsins. Stilltu því hraða í hóf og ekki fara hraðar en aðstæður leyfa.

Mælt er með því að menn taki upprifjunartíma hjá ökukennara áður en lagt er af stað eftir langt hlé, segir í frétt Samgöngustofu.

Samgöngustofa
Samgöngustofa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert