Leiðir lögleiðing til færri glæpa?

Hvaða áhrif hefur brot fyrir vörslu á einu grammi af …
Hvaða áhrif hefur brot fyrir vörslu á einu grammi af kannabis? AFP

Leiðir lögleiðing vörslu fíkniefna til færri glæpa? Eiga brot vegna vörslu fíkniefna að enda á sakaskrá? Þessar spurningar voru meðal þeirra sem ræddar voru á málþingi Félagsfræðingafélags Íslands í morgun sem bar yfirskriftina Fíkniefnalöggjöfin og kostir í stefnumótun: Refsistefna eða afglæpavæðing?

Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari hjá Ríkissaksóknara, flutti erindi um lögleiðingu fíkniefna og hvað hún felur í sér. Hún velti fram þeirri spurningu hvort lögleiðing vörslu fíkniefna leiði til færri glæpa og sagði að það hlyti að vera að horfa þurfi til þess að fækka glæpum sem hafa þolendur, glæpum sem hafa áhrif á samfélagið.

Sitja fyrst og fremst inni fyrir stórfelld brot

Kolbrún sagði að um 30% fanga í fangelsum landsins sitji inni fyrir fíkniefnabrot, en það sé fyrst og fremst fyrir stórfelld brot, innflutning og framleiðslu. Lögleiðing vörslu á fíkniefnum muni því ekki breyta því hverjir sitji í fangelsunum.

Benti Kolbrún á að sá sem er fíkill og ræður ekki við sína neyslu og getur ekki stundað vinnu þurfi alltaf að fjármagna sína neyslu. Varsla á fíkniefnum til einkanota muni ekki endilega breyta því hverjir sitji í fangelsum landins.

Þeir sem fremja alvarleg brot, líkt og kynferðisbrot og fleira, séu í einhverjum tilvikum undir áhrifum fíkniefna og því muni þeir jafnframt enda í fangelsi fyrir brot sín, þó þeir hljóti ekki dóm fyrir meðferð og vörslu fíknefna.

Eitt gramm af kannabis fyrir tæpum þremur árum?

Í umræðunni um fíkniefni hefur meðal annars komið fram sú spurning hvort brot fyrir vörslu fíkniefna eigi að koma fram á sakavottorði. Kolbrún velti fyrir sér hversu íþyngjandi er að smæstu vörslubrotin komi inn á sakavottorð og benti hún til að mynda á að heimild er fyrir því í barnaverndarlögum að þeir sem ráði fólk til starfa með börnum og unglingum fái þessi vottorð.

Kolbrún sagði að sennilega væri íþyngjandi að hafa upplýsingar um þessi brot á sakaskrá en í þessum tilvikum vegist á einkahagsmunir og almannahagsmunir. Talið er eðlilegt að þegar einstaklingur sækist eftir starfi með börnum og unglingum hafi sá sem ræður einstaklinginn upplýsingar um hvort viðkomandi hafi gerst sekur um fíkniefnabrot.

Atvinnurekandinn þarf síðan að meta hversu mikil áhrif brot einstaklingins hefur, t.d. varsla eins gramms af kannabis tæpum þremur árum áður en starfsumsókn berst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert