Listaverk en ekki smíðavara til bygginga

Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, vígði hurðina við hátíðlega athöfn …
Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, vígði hurðina við hátíðlega athöfn árið 2010. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að endurgreiða listamanninum Leifi Breiðfjörð 7,5 milljónir króna í greiddan virðisaukaskatt og álag vegna hurðanna sem prýða Hallgrímskirkju. Um listaverk sé að ræða en ekki smíðavöru til bygginga.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að söfnuður Hallgrímskirkju hafi fyrir 25 árum að hafið að afla fjár fyrir kaupum á listaverki sem nota átti meðal annars sem hurð í kirkjunni. Leitað var til Leifs um gerð listaverksins og tók hann að sér verkið. Um er ræða skúlptúr listaverk sem er hluti af heildstæðu 14 metra listaverki stefnanda á vesturhlið Hallgrímskirkju og samanstendur af lágmynd úr bronsi, tveimur hlutum úr bronsi með myndverki á ytri og innri hlið sem mynda hurð og steindum glugga sem gerður var árið 1999 og settur upp það ár. Hurðin með myndverkinu, lágmyndin og steindi glugginn mynda eina heild.

Þá segir, að Leifur hafi þann 22. janúar 2010 flutt í eigin nafni til landsins frá Þýskalandi þá hluta verks síns sem samanstendur af lágmynd úr bronsi og tveimur hlutum verksins sem mynda bronshurð kirkjunnar. Á tollskýrslu kom fram að um listaverk úr bronsi væri að ræða sem félli undir frumverk af höggmyndum og myndastyttum úr hvers konar efni.

Þremur dögum síðar sendi fulltrúi tollstjóra Leifi tölvupóst þar sem fram kom að tollstjóri hafnaði að afgreiða listaverkið undir tollskrárnúmerinu þar sem embættið teldi listaverkið falla undir annað tollskrárnúmerið, þ.e. smíðavörur til bygginga. Þann 26. janúar 2010 var gerð ný tollskýrsla og greiddi Leifur sama dag virðisaukaskatt með 25% álagi af umræddri sendingu, samtals að fjárhæð kr. 7.471.900, með fyrirvara um endurgreiðslu.

Leifur höfðaði síðan mál gegn íslenska ríkinu og krafðist þess að úrskurður tollstjóra yrði ógiltur og að ríkið dæmt til að endurgreiða Leifi að fullu greiddan virðisaukaskatt og álag.

Héraðsdómur féllst á aðalkröfu Leifs og dæmdi ríkið til endurgreiðslu og felldi úrskurðinn úr gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert