Mikill þrýstingur á þingmenn VG

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gríðarmikill pólitískur þrýstingur var af hálfu Samfylkingarinnar að sótt yrði um aðild að Evrópusambandsins í aðdraganda þess að samþykkt var á Alþingi sumarið 2009 að sækja um slíka aðild. Þá var einnig mikill þrýstingur á þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. 

Þetta kemur fram í svari Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, við skriflegri fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, varaformanns Samfylkingarinnar. Fyrirspurnin var á þá leið hvað gögn lægju að baki þeim staðhæfingum ráðherrans að ekki hafi í raun verið meirihlutavilji á Alþingi að baki umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009 og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna. Vísaði hún þar til greinargerðar með þingsályktun Gunnars Braga um að draga umsókn Íslands um inngöngu í sambandið til baka en því orðalagi hefur verið breytt.

„Á það skal bent að í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar hinn 16. júlí 2009 um þingsályktunartillögu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var gríðarmikill pólitískur þrýstingur í þá veru af hálfu annars þáverandi ríkisstjórnarflokka að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Líta ber til umræðna á Alþingi um tillöguna og aðdraganda þeirrar umræðu í því samhengi. Þá hefur ítrekað komið fram í skrifum, viðtölum og ræðum einstakra þingmanna og ráðamanna og í fræðigreinum að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið undir miklum þrýstingi í aðdraganda umræddrar atkvæðagreiðslu. Ekki telst ástæða til að tíunda frekar þá umræðu eða einstök ummæli, enda á almannavitorði. Auk þess má telja ólíklegt, þótt ekki sé með öllu óþekkt, að þingmenn greiði atkvæði á einn veg en lýsi svo yfir öndverðri sannfæringu síðar,“ segir í svarinu.

Þá er vísað í 48. grein stjórnarskrár lýðveldisins þar sem segi að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki við neinar reglur frá kjósendum sínum. „Ekki eru efnislegar forsendur til að draga í efa að þorri þingmanna stjórnarmeirihlutans hafi fylgt sannfæringu sinni eins og hún birtist í atkvæðagreiðslu. Slíkt mun sjálfsagt verða rannsóknarefni þar til bærra fræðimanna á næstu missirum.“

Svar utanríkisráðherra í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert