Fyrir fólk sem litar sjálft á sér hárið

Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður.
Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður.

„Ég hitti ágæta konu, framhaldsskólakennara á miðjum aldri. Eiginmaðurinn var ríkisstarfsmaður í BHM. Þau voru búin að selja íbúð sem þau áttu til þess að fara í minni íbúð, þau voru í skilum, börðust um á hæl og hnakka. Og þessi ágæta kona sagði við mig. Ég hlakka til þess dags þegar ég get hætt að lita á mér hárið sjálf og get farið á hágreiðslustofu til þess að láta gera það fyrir mig.“

Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðum á Alþingi í gær um skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar. „Það var fyrir fólk eins og þessa konu og hennar mann sem að við settum fram okkar tillögur. Og mér þykir sorglegt að heyra fulltrúa fulltrúa félagshyggjuafla hlæja að þessu.“ Beindi hann orðum sínum að þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og spurði þá fyrir hvaða fólk þeir væru að berjast.

„Ég ætla ekki að gera lítið úr tilfinningu háttvirts þingmanns fyrir sínum kjósendum og þekki það vel af eigin raun hvernig sögur berast manni á ferðum um kjördæmið af lífreynslu fólks og auðvitað á því byggjum við okkar pólitísku sýn og pólitískar hugsjónir. Það er auðvitað af reynslu okkar og þekkingu á raunverulegum aðstæðum fólks í okkar kjördæmum,“ sagði Edward H. Huijbens, varaþingmaður VG. Hins vegar breytti það því ekki að almenna greiningu á skuldasamsetningu fólks vantaði til grundvallar málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert