Grímur Sæmundsen nýr formaður SAF

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, er nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins var kjörinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), á aðalfundi samtakanna í dag. Grímur fékk 55% atkvæða, en mótframbjóðandi hans Þórir Garðarson, stjórnarformaður Iceland Excursions, 45% atkvæða.

Grímur tekur við embættinu af Árna Gunnarssyni, forstjóra Flugfélags Íslands.

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í stjórn fyrir næsta starfsár samtakanna:

  • Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Hölds / Bílaleigu Akureyrar
  • Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia
  • Eva María Þórarinsdóttir Lange, framkvæmdastýra Pink Iceland
  • Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela
  • Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur
  • Anna G. Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri AGMOS ehf.

Skapað fleiri störf en nokkur önnur grein

Í ályktun stjórnarinnar segir að ferðaþjónustan skipti sköpum fyrir efnahagslífið og sé nú orðin stærsta útflutningsgrein landsins. „Hagvöxtur hefði verið neikvæður á síðasta ári ef ekki hefði verið fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan hefur skapað fleiri ný störf en nokkur önnur atvinnugrein á undanförnum árum,“ segir þar meðal annars.

Þá er bent á að samfara mikilli aukningu í fjölda ferðamanna og tekjum af þeim hafi hið opinbera ekki lagt fram nauðsynlegt fjármagn til að tryggja að greinin fái áfram vaxið og dafnað og geti þannig til langs tíma skilað skatttekjum. 

„Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að ferðaþjónustan fái, í hlutfalli við mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskt efnahagslíf, fjármagn til að tryggja að alvöru hagtölugerð verði framkvæmd auk þess sem stóraukið fé verði sett í rannsóknir á ferðaþjónustu,“ segir í ályktuninni.
Þá skorar fundurinn jafnframt á stjórnvöld að vinna strax að framtíðarlausn á fjármögnun á uppbyggingu og rekstri fjölsóttra ferðamannastaða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert