Leiðindaspá framundan

Vetur konungur er kominn á ný ef marka má upplýsingar …
Vetur konungur er kominn á ný ef marka má upplýsingar um veður og færð. Kristján Kristjánsson

Skörp lægð er að fara yfir landið og á Suður- og Vesturlandi er hvasst og úrkoma, slydda í fyrstu en það snýst fljótlega í rigningu. Fyrir norðan og austan fer veðrið að versna um hádegi. Leiðindaveður er í kortunum á morgun.

Hálkublettir og éljagangur er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eru einnig á Suðurstrandavegi, undir Ingólfsfjalli sem og í uppsveitum og á útvegum á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

 Á Vesturlandi eru hálkublettir á Holtavörðuheiði og Svínadal.

Þungfært og ófærð á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum er þungfært og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði ófært á Þröskuldum og hálkublettir á Ennishálsi. Hálkublettir og skafrenningur er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja á Þverárfjalli en hálkublettir á Vatnsskarði, Sauðárkróksbraut og á Siglufjarðarvegi frá Ketilás í Siglufjörð.

Á Norðausturlandi eru hálkublettir á Hálsum en krapi á Dettifossvegi. Hálka er á Fljótsheiði og Mývatnsöræfum en hálkublettir á Mývatnsheiði.

Á Austurlandi er hálka á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði og Breiðadalsheiði.

Hálkublettir, snjóþekja og snjókoma er á Suðausturlandi.

Að sögn vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands má búast við slyddu eða snjókomu fyrir norðan en þar er víða 2-4 stiga frost. Þar verður hins vegar úrkomulaust fram að hádegi.

Það verður strekkingsvindur fram undir hádegi á suðvesturhorni landsins en þá fer að snúast yfir í sunnanátt en nú er vindur að austan. Fyrir norðan verður hvasst fram eftir kvöldi.

Ekki er útlitið gott fyrir morgundaginn því það snýst í norð- eða norðvestan og hiti rétt fyrir ofan frostmark. Því er hætta á að það verði slydda fyrri hluta dagsins á morgun.

Á sunnudag er ágætisspá en á mánudag kemur ný lægð yfir og norðanátt næstu daga. Því er veðurútlitið ekki gott fyrir dymbilvikuna víðast hvar um land.

Spá fyrir næsta sólarhring:

Suðaustan 13-20 með rigningu S- og V-lands einkum um landið sunnanvert, en slyddu eða snjókomu og síðar rigningu á Vestfjörðum um hádegi og N- og A-til síðdegis. Snýst í suðvestan 5-10 með skúrum, fyrst sunnanlands um hádegi. Vægt frost norðanlands fram eftir morgni, annars hiti 1 til 7 stig. Víða hægari í kvöld, síst NV-til.

Á laugardag: Norðan og norðvestan 10-18 m/s, snjókoma og síðan él um landið norðanvert og frystir, en hægari sunnantil, úrkomulítið og hiti 2 til 6 stig. Lægir mikið, einkum sunnan- og vestantil um kvöldið.
Á sunnudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt, dálítil él framan af degi og vægt frost norðanlands, en bjart með köflum sunnantil og hiti 0 til 5 stig.
Á mánudag: Hæg suðvestlæg átt og víða léttskýjað, en skýjað með suður- og vesturströndinni og súld með köflum. Hvessir með rigningu S- og V-til um kvöldið. Hlýnar smám saman.
Á þriðjudag: Lítur út fyrir allhvassa sunnan- og suðvestanátt með rigningu og síðan skúrum, en hægari og bjart með köflum norðaustantil. Lægir mikið síðdegis og hiti víða 2 til 6 stig, en kólnar með slydduéljum um kvöldið.
Á miðvikudag: Breytileg átt og skúrir eða slydduél S- og V-til, en snjókoma eða él nyrðra undir kvöld. Vægt frost fyrir norðan en hiti 1 til 5 stig syðra.
Á fimmtudag: Útlit fyrir kalda norðanátt með éljum um landið N-vert, en bjartviðri að mestu syðra.

mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert